03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

100. mál, talstöðvar í fiskiskip o. fl.

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það leiðir af sjálfu sér, enda þótt það sé ekki tekið fram í frv., að ekki er ætlazt til þess, að landssíminn skaðist beinlínis á því að búa til talstöðvar og því um líkt handa bátum. Hingað til hefir það verið svo, að hann hefir ekki þurft neina fjárhaldsmenn hvað þetta snertir. Oftast hafa bátar og skip fengið þessar stöðvar á leigu.

Okkur hefir virzt það, sem fengið höfum stöðvar á leigu eða útvegað öðrum þær á leigu hjá landssímanum, að hann sé fullfær um að sjá sjálfur um sína fjárhagslegu hlið. Hitt er vitað, að þvert á móti hefir verið kvartað undan því, að landssíminn seldi tækin kannske fulldýrt. Hann hefir að vísu gert grein fyrir leigunni, og ég býst við, að það sé ekki hægt að vefengja það, að eins og að málinu er staðið, þá hafi hann fulla þörf fyrir að fá þá leigu, sem hann hefir krafið. Aftur á móti hefir fengizt viðurkenning á því hjá landssímanum, að hann hafi um eitt skeið heimtað óþarflega háa sjóvátryggingu á þessi tæki.

Mér finnst brtt. hv. 5. landsk. ekki vera til neinna bóta á málinu, heldur finnst mér hún vera óþörf, og að því leyti, sem mætti skilja hana svo, að þingið væri heldur að ýta undir landssímann með að taka fullt gjald fyrir þessi tæki, þá stangast það nokkuð á við skoðun almennings í þessum efnum, sem hingað til hefir talið, að landssíminn tæki fyllilega það, sem hann þyrfti að fá í leigu fyrir þessar stöðvar. Það er að þessu leyti nokkuð óviðkunnanlegt, að þingið fari að skipta sér af þessum viðskiptum með því að ýta undir landssímann að taka vel fyrir sitt. Mér finnst, að till. bendi í þá átt og megi skoðast, ef hún verður samþ., sem nokkurskonar bending frá þinginu til landssímans um, að hann taki fullt fyrir sitt. Ég álít, að það sé óþarft að taka það fram, því hann sé fullfær að sjá fyrir sér sjálfur í þessum efnum.

Það mætti hinsvegar skilja það svo, að sérstök samþykkt um þetta atriði væri eins og nokkur andblástur af hálfu þingsins gegn þeim mönnum, sem eiga að verða aðnjótandi þessara tækja, og ábending til áherzlu þess, að fullt verð, eða kannske vel það, sé tekið fyrir leigu á þessum tækjum. Ég tel það alveg óþarft, að sjómenn og aðrir, sem eiga að hafa gagn af þessum tækjum, þurfi að verða fyrir þess háttar samþykkt, sem ekki verður á annan hátt skilin en sem aðvörun til landssímans um að gefa í engu eftir á sínum rétti.

Ég veit ekki heldur til, að við svipaðar lántökur hafi þótt beinlínis þörf á því, að þær stofnanir, sem hlut áttu að máli, hafi fengið sérstakt aðhald hjá þinginu til að sjá fyrir sér og sínum hag, og það er þá dálítið einkennilegt, ef landssíminn, sem talið er að skili arði og komist vel af, á fyrstur að verða fyrir þessari fjárhagslegu umhyggju og forsjón, sem kemur fram í till. hv. þm.

Af þeim ástæðum, sem ég þegar hefi fært fram, tel ég till. hv. 5. landsk. alveg óþarfa, og heldur til þess að setja annan blæ á málið. Ég mun því greiða atkv. á móti henni.