03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

100. mál, talstöðvar í fiskiskip o. fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég bjóst yfirleitt ekki við, að farið yrði að andmæla þessari sjálfsögðu till., og mér virðist einmitt eftir að hafa hlustað á það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að þá sé síður ástæða til að andmæla henni.

Ég sagði í upphafi máls míns, að leigan fyrir þessi tæki ætti ekki að vera þannig, að hún skaðaði landssímann. Hv. þm. Vestm. gaf heldur í skyn, að landssíminn tæki vel fyrir leiguna, en þá felur mín till. það einmilt í sér, að hann hefir þar aðhald um að selja þessi tæki fyrir sannvirði. Með þessu móti er komizt hjá því, að þeir, sem kaupa stöðvarnar, verði fyrir okri af hendi þeirrar stofnunar, sem hv. þm. talaði um.

Þessi till. er aðeins um það, að ákveða þetta nánar, svo báðir megi vel við una. Hér er sagt með nokkuð ákveðnara hætti, að ætlazt sé til, að stöðvarnar séu seldar fyrir sannvirði.

Ef þessi till. mín verður felld, þá er það merki þess, að hv. d. gefi landssímanum bendingu um að selja þessi tæki fyrir innan kostnaðarverð.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta, en mér finnst þetta vera sjálfsögð till.