15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

100. mál, talstöðvar í fiskiskip o. fl.

Frsm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti! Eins og sjá má á þskj. 440, þá mælir sjútvn. þessarar d. eindregið með því, að frv. verði samþ. óbreytt.

Þetta mál er í raun og veru stórmál. Það hefir fengið óvenjugóðan undirbúning á Alþ. Mönnum hefir verið það ljóst undanfarið, að það er mjög mikilsvert til öryggis sjávarútveginum, sérstaklega smábátaútveginum, að talstöðum sé komið upp í sem flestum skipum. Atburður, sem gerðist í vetur, hefir enn sýnt fram á nauðsyn þess að hafa talstöðvar í fiskiskipum.

Þess vegna var það, að sjútvn. beggja d. komu sér saman um að taka þetta mál upp og kusu sérstaka undirnefnd úr sínum hópi til þess að undirbúa málið og koma því á framfæri. Þessi undirnefnd sneri sér til þeirrar stofnunar, sem hefir haft með þessi tæki að gera, landssímans, en landssímastjórnin tók þannig í málið, að hún skipaði sérfræðing til að rannsaka það. Í fskj. með frv. eru svo prentaðar till. landssímastjórnarinnar. Þar eru till. um það, hvernig eigi að byggja þetta upp teknískt séð, og þar kemur landssímastjórnin með kostnaðaráætlun.

Þá var næsta stigið, hvernig ætti að afla fjár til framkvæmdanna. Þá var það, að sjútvn. Alþ. sneru sér til fjvn. um það, hvort hún treysti sér til að taka upp í fjárl. yfirstandandi árs, næsta árs og ársins 1942 allverulega fjárupphæð, til þess að koma mætti þessu í viðunandi horf á 3 árum. Fjvn. tók vel í málið, en hún treysti sér þó ekki til að hafa svo háa fjárupphæð í sínum áætlunum, og óskaði hún eftir, að fyrst væri talað við ríkisstj. um málið. Það varð svo úr, að undirnefnd sjútvn. og fjvn. óskuðu viðtals við ríkisstj., og var svo haldinn fundur, þar sem það var tekið til athugunar, á hvern hátt heppilegast væri að afla tekna til þess að geta komið þessu merkilega máli í framkvæmd.

Niðurstaðan af öllum þessum undirbúningi var svo sú, að frv. var borið fram af sjútvn. Ed. og í því formi, að farið var inn á lánsheimildarleiðina. Eins og 1. gr. frv. greinir, þá er farið fram á, að ríkisstj. sé heimilað að taka 225 þús. kr. lán handa landssímanum.

Þetta eru meginþættirnir í þessu merkilega máli. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Sjútvn., sem ég er frsm. fyrir, mælir eindregið með því, að frv. verði samþ.