13.04.1940
Efri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

8. mál, jarðhiti

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frá hendi n. hefi ég ekki mikið um þetta frv. að segja. N. hefir lagt til, að frv. verði samþ. En eins og nál. á þskj. 421 ber með sér, hefir einn nm. sérstöðu og hefir skrifað undir nál. með fyrirvara og flytur brtt. við frv. á þskj. 422, og geri ég ráð fyrir, að hans fyrirvari byggist á því, að það sé efa bundið, að hann fylgi frv., ef þessi brtt. hans verður ekki samþ.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frv. í heild neitt nánar. Það er ljóst, og ég geri ráð fyrir því, að hv. dm. hafi kynnt sér það, en brtt. á þskj. 422 ætla ég ekki að ræða fyrr en hv. flm. hennar hefir gert grein fyrir henni.

En það gæti þá hugsazt, að út af því væri ástæða til að taka til máls eftir að minni hl. n. hefir hér gert grein fyrir sinni afstöðu. En meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.