15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

8. mál, jarðhiti

*Magnús Jónsson:

Það er satt, að frv. er búið að liggja fyrir hverju þinginu eftir annað, án þess að það þætti svo vel undirbúið, að vert þætti, að það gengi fram. Það hefir lítið verið rætt eða athugað, og ef satt væri það, sem hv. 2. þm. S.-M segir, að það hafi ekki breytzt nema til hins lakara, lízt mér ekki sem bezt á að flaustra því nú óbreyttu gegnum þingið.

Það er prinsipmál, hvernig þessum löggjafaratriðum skuli haga. Þó að ég sé samþykkur brtt. hv. 11. landsk. og geti viðurkennt ýmislegt í frv., fer því fjarri, að ég geti sætt mig við það eins og það er.

Með ábúðarlögunum virðist eindregið stefnt að því, að sem flestar jarðir komist í sjálfsábúð. Þar er á allan hátt reynt að draga úr hagsmunum jarðeigenda, og tel ég þar að vísu allt of langt gengið, en sjálfsábúðarstefnan, sem að baki því er fólgin, hefir verið mælikvarði Alþingis á alla löggjöf, sem þetta snertir. Nú er í þessu frv. stefnt að því að gera þann fjölda jarða, sem einhver hiti fylgir, hversu lítil volgra sem er, að ríkiseign og torvelda einstaklingum að eignast þær. Þarna finnst mér nokkuð hratt stefnt frá þeirri stefnu, sem Alþingi og áreiðanlega meiri hluti bænda hefir talið heilbrigðasta. Það getur verið nauðsyn, að þeir örfáu stóru hverir, sem líkur eru til, að notaðir verði til almenningsþarfa, komist fyrr en síðar í hendur hins opinbera. Mér finnst þurfa nú þegar rannsókn á því, hvaða hveri þar er um að ræða, og má að því búnu gera um þá sérstakar ráðstafanir. En betra væri, þótt einn og einn slíkur hver yrði þá útundan í bráðina, en að leggja undir ríkið allar jarðir, sem að nafni til hafa einhverja laug í landi sínu. Á Alþingi 1937 var borin fram till. til þál. af hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt) og hv. 6. landsk. (EmJ) um, að rannsökuð skyldu jarðhitasvæði landsins. Till. var samþ., og nú væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ríkisstj., hvað hún hefir gert í því máli. Till. var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til að rannsökuð verði stærstu jarðhitasvæðin hér á landi og þá fyrst þau, sem líklegust eru til að hafa hagnýta þýðingu. Skal leita samvinnu bæjar- og héraðsstjórna á þeim stöðum, þar sem rannsóknirnar eru líklegar til að koma að notum, um fjárframlög til rannsóknanna, en að öðru leyti skulu þær kostaðar af ríkissjóði.“

Í grg. till. er tekið fram, að mjög fá jarðhitasvæði hafi verið athuguð til neinnar hlítar, og flest ekki neitt; vanti því allan grundvöll undir framkvæmd hagnýtingar þessara náttúrugæða, sem enginn viti, hversu mikils virði eru.

Þessi þál. segir einmitt mikið af því, sem ég vildi segja að svo komnu máli. Áður en flaustrað er af lögum, sem að ýmsu leyti gætu haft mjög varhugaverðar afleiðingar, þarf m. a. að fara fram rannsókn á því, hvar líkur eru til að jarðhiti verði notaður, og hvaða hverajarðir geti orðið hagnýttar fyrir stærri svæði. Alþingi hefir látið í ljós sinn vilja með því að leggja til, að þessi rannsókn verði framkvæmd. Ég vil og benda á í þessu sambandi, að ef nota á jarðhita til upphitunar, þá munar það mestu, hvort hann er í nánd við mikið þéttbýli og fjölmenni, en nú hittist svo undarlega og óheppilega á, að þar, sem hverir eru hér á landi, eru þeir svo að segja hvergi í nánd við mikið fjölmenni; jafnvel þar, sem jarðhiti er mikill, er hann víðast hvar langt frá þéttbýlu stöðunum. Það má t. d. segja um Deildartunguhver, að hann væri verðmeiri, ef hann væri úti við Akranes, og eins með hverina í Skagafirðinum, að þeir væru verðmætari, ef þeir væru úti á Sauðárkróki. En það, sem vakað hefir fyrir mönnum, er eflaust það, að reynt yrði með borunum, hvort ekki væri hægt að ná upp heitu vatni í nánd við fjölmenni, og svo það, hvaða hverir eru líklegir til þess að hægt verði að hagnýta þá til hitaveitu eða iðnrekstrar í fjölmenni.

Svo er síðari liður till., sem sé, að undirbúið verði fyrir næsta þing frv. um eignar- og notkunarrétt jarðhita á svipuðum grundvelli og frv. það, sem hér liggur fyrir. Nú hefir ríkisstj. ekki framkvæmt síðari liðinn, a. m. k. ekki þannig, að árangurinn af þessari athugun sé fram kominn í frv.formi, en hinsvegar þykir mér líklegt, að hæstv. ríkisstj. hafi eitthvert tillit tekið til þessarar till., sem samþ. var í Sþ. árið 1937, og má því búast við, að hún hafi í undirbúningi einhverjar lagasetningar um þetta efni.

Ég vildi óska, að hæstv. Alþingi væri ennþá sama sinnis í þessu efni og 1937, og þótt ég játi, að þetta er góð tilraun af hálfu þeirra manna, sem búið hafa til þetta frv., þá myndi ég frekar kjósa, að ríkisstj. yrði falið að rannsaka málið frá rótum.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að það mætti samþ. frv. eins og það er; það stæði þá alltaf til bóta. Ég held einmitt ekki, að með svona atriði eigi að fara þá leið að setja fyrst löggjöf, sem lítið er undirbúin. Þetta er, álít ég, hliðstætt vatnal. Það er út af fyrir sig ekkert vandamál að setja allmikinn lagabálk, sem í eru almenn, skynsamleg fyrirmæli um hitt og annað, sem ekki orkar tvímælis, en hinsvegar geta verið ákveðnar grundvallarreglur, sem geta staðið í vegi fyrir því samkomulagi, sem þarf til að slík frv. nái samþykki. Eins gæti þetta orðið um l. um jarðhitann, að það yrðu grundvallaratriðin, sem stæðu á milli, þótt hægt væri að setja ákvæði um almenn atriði, svo ég held það væri rétt að fá úr þeim „princip“-atriðum skorið í milliþn. eða á annan hátt með rannsókn, sem hæstv. ríkisstj. léti fram fara. Ég hefði talið beztu afgreiðsluna á þessu máli vera þá, að fram hefði komið rökstudd dagskrá, þar sem vísað hefði verið til þessarar ályktunar Alþingis frá 1937, og það ítrekað, að ríkisstj. léti undirbúa og athuga málið nánar. Ég ætla samt ekki að bera fram þessa dagskrá nú við 2. umr., heldur sjá, hvernig henni reiðir af, þar sem enn er ekki vitað, hvort hv. d. vill afgr. málið nú eða með hvaða formála.