15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

8. mál, jarðhiti

*Jónas Jónsson:

Ég gat ekki sannfærzt af ræðu hv. 1. þm. Reykv. um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Það var að vísu rétt, sem hann sagði, að gildandi ábúðarl. hefði nokkuð verið breytt frá því, sem þau voru áður. Þeim var breytt á þann hátt, að við vildum auka rétt hinna einstöku búenda meira en áður var, en minnka rétt þeirra landeigenda, sem áttu jarðir, en bjuggu ekki á þeim sjálfir. Sú breyting á ábúðarl. var gerð út frá því sjónarmiði, að það gerði sterkari bændastétt í landinu, ef sem flestir yrðu sjálfseignarbændur, sem nú eru leiguliðar, og eftir allharða baráttu í þinginu varð þessi skoðun ofan á, og það hefir ekki verið á móti því mælt, að það hafi verið rétt hugsað. Það ástand, sem áður var í þessum málum, var það, að vissir bændur áttu þetta 10–12 jarðir, sem þeir leigðu mönnum með óvissum ábúðarrétti og þröngvuðu kosti leiguliðanna svo, að þeir sáu sér ekki fært að bæta jarðir sínar, og enn síður höfðu þeir nokkra tryggingu fyrir, að börn þeirra fengju jarðirnar. Á öllu þessu byggðum við þær breyt., sem gerðar voru á ábúðarl., eins og hv. þm. sagði. Það er þessi sami hugsunarháttur, sem kemur fram í því, að vilja gera þá menn, sem rækta jörðina, sem sjálfstæðasta og öruggasta á þessum býlum og minnka rétt þeirra óviðkomandi fésýslumanna, sem kunna að vilja eiga jarðir og notfæra sér á þann hátt, sem er mannfélaginu lítt uppbyggilegt, sem kemur fram í þessu frv. um eignar- og notkunarrétt jarðhita, þessara stórkostlegu náttúrugæða, sem ekki eru til nema í einu öðru landi í álfunni, og ekki nema á nokkrum stöðum hér á landi. Þessi gæði geta verið svo þýðingarmikil, að þau jafnist á við stórar námur. Þó er víðast hvar útilokað, að hægt sé að hagnýta jarðhitann til iðnaðarþarfa í stórum stíl. Slíkt kemur ekki til greina hjá venjulegum bændum eins og þeim, sem verið var að tryggja aukinn rétt með ábúðarl. Ef um stórrekstur ætti að vera að ræða, yrðu það fjárfrek fyrirtæki, eins og hver annar stóriðnaður, svo notkun jarðhita í stórum stíl er ofviða þeim venjulega búskap á Íslandi, eins og hann gerist nú. Það er ekki rétt hugsað hjá hv. 1. þm. Reykv. að blanda saman því, þegar verið er að reyna að tryggja smárekstur einstaklinga, og hinsvegar því, sem þetta frv. gengur út á, að reyna að tryggja, að hér geti komið upp stórrekstur, þar sem skilyrði er til þess. Það er ómögulegt að neita því, að fyrirtæki eins og það, sem hér er hafið og hugir manna beinast mjög að hér í Rvík, er stórrekstur, þegar Reykjavíkurbær ætlar sér að hita upp bæ fyrir 60 þús. manns frá einni námu. Það væri ekki lítil kolanáma, sem þyrfti til að framleiða nóg fyrir slíkan bæ. Ég vil aðeins taka eitt eða tvö dæmi um jarðhitann. Ég vil fyrst minnast á Geysi. Þar átti sér stað meira brask en nú myndi sennilega látið viðgangast, þegar Geysir var keyptur af útlendum manni og honum spillt eða lokað með hirðuleysi og óvandaðri meðferð, sem ekki varðaði við l. þá, og ég veit ekki til að geri það enn, og mun ekki gera á næstunni, nema frv. þetta nái fram að ganga. Ég get ekki hugsað mér meiri vanmátt hjá þjóðfélaginu en það, að eign eins og Geysir sé seld fyrir fáein þús. út úr landinu, og þótt eigandanum hefði þóknazt að fylla Geysi upp, þá hefði enginn getað sagt neitt við því. — Þá skal ég koma með annað dæmi. Reykjavíkurbær keypti fyrir nokkrum árum jarðhitasvæðið í Mosfellssveit fyrir, að mig minnir, 150 þús. kr. Segjum svo, að öðruvísi hefði þá verið í haginn búið, ef menn hefðu t. d. áður verið búnir að tala um það af alvöru að hita Reykjavík með þessu vatni. Þá hefðu einhverjir fésýslumenn getað verið búnir að kaupa þetta svæði fyrir segjum eina millj. kr., svo þegar Reykjavík vildi kaupa það, þá hefðu fésýslumennirnir getað sannað, að svo og svo mikla peninga hefðu þeir lagt í þetta og yrðu því að fá svo og svo mikið fyrir landið. Þetta hefði svo orðið að koma niður á fólkinu í Reykjavík. Ég segi ekki, að það hefði verið sanngjarnt, að Reykjavík hefði orðið að kaupa þetta svo dýrt, en svona hefði það farið, hefði þetta verið rekið sem „spekulation“. Þetta fór reyndar ekki svo, en það var ekki að þakka neinum dyggðum Reykjavíkurbæjar, heldur því, að menn höfðu ekki auga fyrir að „spekulera“ með þetta. Nú hafa menn komið auga á þetta og margir hafa ágirnd á jarðhitasvæðunum af „spekulations“-ástæðum, til þess að græða á þeim. Þeir vilja nota sér það, að þetta er sýnilega mikið verðmæti í kolalausu landi. Að þessu frv. standa þm. frá einhverju hveraauðugasta svæði landsins, Árnessýslunni, en þeirra augu hafa opnazt og þeim stendur stuggur af því að hafa þessi miklu verðmæti þarna lausbeizluð. Það er ekki um það að ræða á þessum hlunnindajörðum í Árnessýslu að setja þar upp stóriðnað, en þarna geta komið menn, sem vilja kaupa hverina til þess að „spekulera“ með, en slíkt kemur ekki fyrir, ef hreppurinn, sýslan eða ríkið á forkaupsréttinn, því þeir aðilar myndu ekki kaupa þá til að „spekulera“ með, heldur til þess að eigi það handa borgurum landsins, þegar á liggur. Ég skal líka taka sem dæmi, að í því kjördæmi sem ég er þm. fyrir, er hver svo sem 15 km. frá Húsavík, sem hefir um það bil eins mikið af vatni og hverirnir í Mosfellssveit höfðu áður en farið var að bora, og það lítur út fyrir, að ef lögð væri þaðan leiðsla þessa 15 km. til Húsavíkur, þá myndi vatnið renna þangað af sjálfu sér; það þyrfti sem sé ekkert að hækka það upp. Nú er Húsavík ekki nema lítið þorp, en ef fjármagn væri þar til staðar, þá væri það hin mesta búbót að veita þessum hver til Húsavíkur og nota vatnið jafnframt til ræktunar í þeim frjósömu héruðum, sem það yrði leitt í gegnum. Ég er svo eigingjarn fyrir mitt kjördæmi, að ég vildi heldur óska, að þessi hver yrði í eigu ríkisins um nokkurt skeið, en að hann færi í „spekulation“, svo erfitt yrði að ná honum aftur nema með ærnum kostnaði, þegar að því kæmi, að hægt væri að nota hann. Ég skal nefna hliðstætt dæmi héðan úr Reykjavík. Ég hygg, að Reykjavíkurbær hafi ekki alls fyrir löngu átt þann litla blett, sem Hótel Borg stendur nú á, og hafi þá selt hann fyrir fremur lítið, en svo þegar hótelið var byggt, varð að kaupa þennan sama blett fyrir l50 þús. kr. Þetta er eitt af því, sem mest þjáir Reykjavík. Þeir landnámsmenn, sem hér voru um tíma, leyfðu það, að lóðirnar lentu í „spekulation“, og þetta feikilega verð á lóðunum er ein ástæðan fyrir dýrtíðinni, sem hér er.

Því vona ég nú, að sá hv. þm., sem hefir þann vanda og heiður að vera 1. þm. Reykv., sjái nú, hvað hagsmunum hans kjördæmis líður í þessu máli, og hjálpi til þess að losa höfuðstaðinn undan því böli, sem hér af kann að hljótast, og ég treysti því, að vegna hans virðulega sætis og vegna kjördæmisins sjái hann sér fært að snúast öðruvísi við þessu máli en ræða hans gaf ástæðu til að ætla.