15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

8. mál, jarðhiti

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér þykir hlýða að segja nokkur orð um þetta mál áður en þessari umr. lýkur. Þetta mál mun hafa legið 4 sinnum fyrir Alþingi, en til þessarar hv. d. hefir það ekki komið fyrr en á síðasta þingi, og eins og kunnugt er, þá liggur það nú í annað sinn fyrir þessari hv. d. Í sambandi við meðferð málsins í Nd. á undanförnum þingum er rétt að geta þess, að á þinginu 1938 er málið flutt, eins og sjá má af grg. þess þá, fyrir tilstilli hæstv. forsrh., eftir að hann hafði samkv. ósk hv. d. á fyrra þingi, látið fara fram athugun á málinu á milli þinga. Hverjir það eru, sem hafa athugað málið, er mér ekki kunnugt, en þetta allt bendir í þá átt að málið hafi fengið allverulegan undirbúning og rannsókn. Málið kom svo til þessarar hv. d. á síðasta þingi, að mig minnir í seinni hluta desembermánaðar, og fór þá til allshn. Okkur nm. fannst þá málið vera það umfangsmikið og þýðingarmikið og e. t. v. mörgum tilfinningamál, að nauðsyn bæri til, að fram á því færi gagnger athugun. Við töldum ekki, að tími væri nægur til að láta slíka athugun fara fram, þar sem rétt var komið að þinglokum, en samt sendi n. tveimur aðilum frv. til umsagnar. Má e. t. v. segja, að við höfum þar ekki hitt á hina réttu aðila, en við leituðum til Verkfræðingafélags Íslands og Búnaðarfélags Íslands og báðum um umsögn þeirra. Verkfræðingafélagið svaraði rétt í þinglokin, og er ekki mikið á því svari að græða. Má nánast segja, að það væri frekar neikvætt en jákvætt. Aftur á móti hefir Búnaðarfélagið nú svarað okkur með umsögn, sem að vísu er mjög stutt og e. t. v. ekki nógu rökstudd, en með leyfi hæstv. forseta vil ég láta koma fram, hvað stjórn Búnaðarfélagsins segir um þetta mál. Hún segir: „Félagið vill hér með láta í ljós það álit sitt, að nauðsynlegt sé að setja löggjöf um þessi efni. Í jarðhita landsins er fólgið svo mikið verðmæti, sem er mikilvægt fyrir allan almenning, að nauðsynlegt er að ákveða með lögum ýmislegt varðandi þessi gæði. Er nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að jarðhitinn lendi í braski milli manna. Félagið telur, að frumvarp þetta, ef að lögum verður, muni koma að gagni og mælir þess vegna með samþykkt þess.“

Þetta er, eins og allir sjá, yfirlýsing um afstöðu Búnaðarfélagsins til frv. N. taldi, að þótt lítill tími væri fyrir hendi, þá væri samt rétt, að hún gerði málinu einhver skil, eða léti a. m. k. í ljós, hvort n. vildi vera með því eða á móti. Ég segi fyrir mig, að ég var alveg ákveðinn í því að leggjast fremur með frv. en á móti því, af þeim ástæðum, er nú skal greina. Ég hygg, að það sé full nauðsyn á því, að nokkrar skorður séu settar við því, að jafndýrmæt náttúrugæði og jarðhitinn er nú fyrir landsmenn geti orðið braskvara til óverðugra manna, jafnvel útlendra manna. Það liggur í hlutarins eðli, að þegar augu manna hafa opnazt fyrir því, hvað með jarðhitann má gera, þá verður það freisting fyrir þá, sem yfir honum ráða á hinum ýmsu stöðum á landinu, að selja hann fyrir einhvern pening, ef þeim býðst það, og kunna þá kannske ekki skil á verðmæti hans. Þessi skoðun hefir komið fram hjá öllum fylgjendum málsins, og ég get tekið undir með þessari stefnu. Hinu ber ekki að neita, að þetta getur valdið þeim nokkrum trafala, sem eiga jarðhitasvæði, þótt ég hinsvegar sjái ekki betur en að þeir hafi fullt frelsi til að nota hann til hinna og annara framkvæmda á jörðum sínum, en frv. miðar tvímælalaust að því, að ekki sé hægt að selja til annara en 2. og 3. aðila, sem þar eru nefndir, án þess að ríkið hafi hönd í bagga með því. Virðist mér allt frv. miða að því, að hið opinbera geta smátt og smátt orðið eigandi þessara náttúrugæða. Út frá stefnu okkar Alþfl.-manna get ég ekki annað en verið með því, að löggjöf, sem miðar í þessa átt, verði samþ.

Ég skal ekki fara ýtarlega út í brtt., sem hér liggja fyrir, en ég hygg, að það kunni að verða nokkrum vandkvæðum bundið að framfylgja þeim, ef þær verða að l., svo að ef margir eigendur eru að jörð, sem hefir jarðhita og vafi sé á, hver eigi að ráða yfir þessu, ef aðeins einn eigandinn vill selja, þá sé ég ekki, að brtt. taki neitt svo skýrt fram um þetta efni, að ekki geti alveg eins risið upp ágreiningur um það, hver sé eiginlega sá rétti aðili, þegar um fleiri eigendur er að ræða. Það má e. t. v. segja, að eðlilegast sé að næsti kaupandi sé fyrsti aðili til að gerast kaupandi jarðhitans, en ekki, að hreppurinn eða sýslan geti komið þar til. Nú er notkun jarðhitans víðast fremur lítil. Við skulum taka sem dæmi jarðirnar í Árnesssýslu. Ég býst við, að allir þeir, sem hafizt hafa handa um starfrækslu í sambandi við hveri, myndu geta haldið henni áfram, þótt svona löggjöf yrði sett, en þá væri fyrirbyggt allt óeðlilegt brask, hvort sem þar væru að verki útlendir eða innlendir menn. Ég vildi aðeins láta það koma fram í umræðunum, hvers vegna málið hefir ekki fengið hraðari afgreiðslu hjá nefndinni, en það er af þeim ástæðum, sem ég nú hefi greint.