16.04.1940
Efri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

8. mál, jarðhiti

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég verð að segja, að ég kann betur við þá aðferð, sem andstæðingar málsins beita nú. Hún er gamalkunn, því þegar menn vilja koma máli fyrir kattarnef, þá finna þeir upp þá leið að vísa því frá. Það er ekkert við því að segja.

Mér finnst, að ástæður þær, sem færðar eru fram fyrir þessu, séu veigalitlar. Það er farið fram á, að þetta verði rannsakað, en það er heldur losaralegt, hvernig sú rannsókn á að vera. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð, hvernig við, sem erum ófróðir um þetta mál, verðum fróðari fyrir það um það, hvernig þessi löggjöf eigi að vera.

Það kom fram í umr. í gær, að menn teldu það galla á frv., að þar væri tekinn allur jarðhiti, hvaða volgra sem væri. Ég geri ráð fyrir, að þótt rannsókn fari fram á þessu máli, þá verði sumt erfitt að sýna fram á, hvaða volgrur eigi að vera undanþegnar l. Það hefir sýnt sig, að það má margfalda jarðhitann með borunum, og þá getur farið svo, að volgrurnar verði mikils virði. Ég lít þannig á, að það sé einmitt nauðsynlegt að taka þessar svokölluðu volgrur með. Það veit enginn, hvað mikil verðmæti geta í þeim legið.

Ef þessi rannsókn á því að vera framkvæmd eftir vilja hv. 1. þm. Reykv., þá mun hún taka nokkuð langan tíma. Það yrði þá að bora upp allar jarðhitaholur á landinu til þess að ganga úr skugga um, hvort það mætti draga þær undir l.

Það er með þetta mál eins og mörg önnur, að andstæðingar þess nota þær leiðir, sem þeir geta fundið til þess að reyna að koma því fyrir kattarnef. Þetta er ekki nýtt, því þetta mál er búið að liggja fyrir þinginu í 4–5 ár. En það er áreiðanlegt, ef ekki er sett löggjöf um þetta efni, þó hún kunni að vera ófullkomin, þá mun á næstunni meir og meir af þessum verðmætum lenda í höndum þeirra manna, sem eru að reyna að ná eignarhaldi á þeim í því skyni að græða á þeim. Það er þetta, sem lagasetning um þessi efni á að fyrirbyggja. Ég skal viðurkenna, að það geta verið mörg atriði, sem þarf að setja ýtarlegri löggjöf um.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta mál. Það er þýðingarlítið. Ég er ekki það fróður, að ég geti fært mikið fleiri rök fyrir málinu en þegar hafa verið færð fram við þessar umr. Ég geri ráð fyrir, að það hafi litla þýðingu á báðar hliðar að karpa meir um málið. Atkvgr. mun fara eftir þeirri ákvörðun, sem hv. þm. hafa þegar tekið, og það verður að skeika að sköpuðu, hvernig fer um þessa rökst. dagskrá.