16.04.1940
Efri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

8. mál, jarðhiti

*Magnús Jónsson:

Við verðum náttúrlega að sætta okkur við, að atkv. skeri úr um þetta mál eins og önnur stórmál.

Hv. þm. sagðist kunna betur við þá aðferð, sem ég beitti hér, en eitthvað annað, sem hann þó ekki nefndi. Þetta er þingleg aðferð. Ég álít, að það sé hin eina rétta aðferð um mál eins og þetta, sem er í sjálfu sér enginn ágreiningur um. Það er ekki ágreiningur um það, að rétt sé, að setja löggjöf um jarðbita á Íslandi. Mér finnst einkennilegt, að þeir menn, sem álíta, að hin mesta þörf sé á löggjöf um svo vandasamt mál, skuli vilja hafa það káklöggjöf, óundirbúna og lítt hugsaða, enda hefir hv. frsm. játað, að hann viti sáralítið um þetta mál.

Sú eina rétta aðferð er að vísa málinu til ríkisstj. með tilmælum um, að hún láti rannsaka það og undirbúa löggjöf um það. Ég verð því að segja, að ég og þeir, sem fylgja hinni rökst. dagskrá, erum vinir málsins.

Hv. þm. taldi það vera til lítils að láta rannsaka málið, því þetta væri svo losaralegt í till. Ég ber þó fyrir mig það, sem Sþ. samþ. 1937 með shlj. atkv. Ég býst við, að hv. þm. hafi verið einn af þeim þm., sem samþ. till. Það var a. m. k. einn af flokksbræðrum hans, sem var meðflm. að till. Ég sé því ekki, að við getum haft neina þinglegri meðferð á málinu en þessa.

Hv. þm. gerði að umtalsefni eitt atriði, sem ég nefndi, og það var það, að ég teldi ekki ástæðu til að draga þarna undir allan jarðhita á landinu. Já, það er alveg rétt, sem þm. segir, að það er ekki gott að vita, hver volgran kann að vera verðmætust. Það fer kannske ekki eftir stærð hversins, heldur hvar hann liggur. Volgra, sem liggur nálægt Akureyri, getur verið miklu meira virði en allir hverirnir á Hveravöllum. Það þarf að fara fram rannsókn á þessu, og hin rétta leið er, að rannsóknin fari fyrst fram og svo séu lögin sett, og það er engin ástæða til þess að setja um þetta lög eins og er. Við vitum báðir eitthvað lítið um þetta mál, og ég dreg þá ályktun af því, að ég vilji vita eitthvað meira um það, en hv. þm. vill, af því hann veit ekki vel um það, setja einhverja káklöggjöf.

Mér skilst á honum, að það verði lítið gagn að jarðhita, ef þessi lög verða ekki sett. Hvað hefir skeð síðan 1936, og hvaða stórfelld notkun hefir orðið á jarðhita? Það er kannske orðið tilgangslaust að setja þessi lög? Allt komið í óefni. Það er aldrei að vita, hvað skeður, sem gerir þetta gagnslaust. En ég hefi ekki trú á því, eins og lítur út með virkjun á meðan ófriðurinn stendur, að þessi lagasetning megi ekki bíða þangað til rannsókn hefir farið fram.

Ef frv. verður samþ., þá munu þau lög sennilega gilda áfram í þessu ófullkomna formi, án þess að nokkuð verði gert í málinu, sem geti orðið til gagns.