17.04.1940
Neðri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

77. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. þm. V.-Sk., að þetta sé óhaganlegt fyrirkomulag. Eftir því, sem mér er kunnugt, hygg ég, að þau heimili yfirleitt, sem þurfa að skaffa börnum bækur, telji þetta gott fyrirkomulag. Og reynslan hefir sýnt, að það er ódýrara að skaffa börnum bækur með þessu fyrirkomulagi heldur en með því, að hver einstakur kaupi sínar bækur, enda þótt hann eigi þær á eftir. Það er augljóst, að þrátt fyrir það, þó að gengið væri út frá því, þegar málið var rætt hér fyrst og l. voru sett um það, að þetta 8 kr. gjald skyldi ekki vera svo hátt nema fyrstu 2 árin og 5 kr. úr því, þá eru nú svo breyttar aðstæður, að mér finnst eðlilegt, að þetta hámark gjaldsins haldist, þar sem bæði pappír og vinnulaun hafa stigið svo mjög sem raun ber vitni. Þrír nm. töldu rökin fyrir þessu réttlát. Einn nm. var ekki viðstaddur. En sá fimmti skrifaði undir nál. með fyrirvara, sem hann hefir nú gert grein fyrir. Mér þykir undarlegt að halda fram, að þetta sé óeðlilegt fyrirkomulag, og óeðlilegt, að þetta hámark haldist, þar sem dýrtíðin hefir aukizt.