17.04.1940
Neðri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

77. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég ætlaðist ekki til þess, að minn fyrirvari yrði tilefni til þess að fara inn á grundvöll málsins frekar eða yfirleitt málið. En reynslan er a. m. k. misjöfn í þessu máli. Og um það, hvort þetta sé haganlegt, eins og hv. þm. komst að orði, þá virðist vera aðeins eitt, sem mælir með því að hækka gjaldið, sem er, að ástæður eru nú breyttar. En ég býst við, að sannleikurinn sé sá, að þrátt fyrir það, sem talið var til gildis málinu áður, og var talið, að ekki myndi þurfa lágmarksgjaldið, sem reynslan sýndi, að ekki þótti kleift, þá sé það svo, að hvort sem tekið væri 5 kr., 7 kr. eða 8 kr. gjald, þá ber fyrirtækið sig ekki. Og þetta ósannar fullyrðingar þeirra manna, sem fluttu málið inn á þing, því að þeir töldu, að það yrði ekki aðeins haganlegt fyrir almenning, heldur (sem ekki hefir reynzt) líka ákjósanlegt fyrir hið opinbera og að það myndi borga sig. En það er langt því frá, að svo hafi reynzt. Það opinbera ber skarðan hlut frá borði í þessu og illa hefir að ýmsu leyti farið með framkvæmdir þessara mála, maður getur sagt bókstaflega með bækurnar, sem til voru hjá einstaklingum. Því að þegar l. gengu í gildi, mátti sama og ekkert notast við þær, heldur var reynt að sópa þeim burt og koma með nýjar bækur í staðinn.

Þetta gjald er árgjald, sem þeir, sem hafa börn eða aðeins eitt barn á skólaaldri, verða að greiða. Það er skylt að skipta um bækur árlega. Nú gæti eitt barn eftir annað notað sömu bækurnar, og væri það haganlegra, einkum með tilliti til þess, að bækur hafa ekki fallið í verði, heldur hið gagnstæða. Það er vafasöm bókmenning, að kasta bókum og troða fram alltaf stöðugt nýjum bókum.

Reynslan hefir sýnt, að þetta er óhaganlegi fyrirkomulag fyrir báða aðila, bæði þá, sem taka þetta að sér, og leiðinlegt í framkvæmdinni fyrir hina, sem þurfa að innheimta þetta gjald, sem verður vafalaust 7 kr., þó að það sé tekið svo til orða til þess að koma málinu áfram, að láta það heita 5–7 kr., en ekki 7 kr. ákveðnar.