15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

22. mál, skógrækt

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég verð fyrir hönd landbn. að leggja á móti þessari brtt. hv. 1. og 2. þm. Rang., og eru skoðanir þessara hv. þm. viðvíkjandi 17. gr. frv. á algerum misskilningi byggðar. Í þessu frv. er tekið fram, að dýraleitir innan skógargirðinga skuli vera framkvæmdar á kostnað viðkomandi hreppa, en í raun og veru er þetta ákvæði óþarft, vegna þess að í gildandi l. er ákvæði um, að hreppar annist dýraleitir yfirleitt á sínu upprekstrarlandi. Ég skal, þessu til sönnunar, vitna í 2. gr. gildandi l. um þessi efni, þar sem segir, að hreppsnefndir skuli sjá um smölun á afrétti síns hrepps, og einnig í 6. gr. sömu l., þar sem ábúendum er gefin heimild til þess að taka þátt í grenjavinnslum á helmingi eignarinnar, en annars skuli þær framkvæmdar af hreppsnefndum. Samkv. þessum lagafyrirmælum ber hreppunum skylda til að sjá um dýraleitir og grenjavinnslur. Þess vegna yrði alveg einstakt, ef ætti að skylda Skógræktarfélag Íslands til að hafa þetta verk á hendi, og yrði það þá eini aðilinn á landinu, sem beittur væri þeim órétti. Brtt. á þskj. 438 stríðir móti gildandi l., enda nær ekki nokkurri átt, að Skógræktarfélagið hafi kostnað af smölun búpenings.

Þá er það ákvæði, sem skyldar Skógræktarfélagið til að annast göngur á haustin í skógargirðingunum. Þessi till. er líka óþörf, því að í frv. er ákvæði, sem skyldar félagið til að sjá um göngurnar, nema því aðeins, að ráðh. geti út sérstaka fyrirskipun um, að þetta fari fram á kostnað fjáreiganda, ef til þess lægju svo ríkar ástæður, að sú fyrirskipun væri nauðsynleg. Þessi heimild ráðh. mun nú samt sjaldan eða aldrei koma til greina, en ég mun verða þessu ákvæði samþykkur. Ég sé aftur á móti enga ástæðu til að breyta ákvæðum 17. gr. og legg til, að brtt. á þskj. 438 verði tafarlaust felld.