13.03.1940
Efri deild: 16. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

20. mál, atvinna við siglingar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er út af nokkrum ummælum hjá hv. frsm., að ég vil segja hér örfá orð.

Ég hefi engu við það að bæta, sem hann sagði um nauðsyn þessa máls. Það er rétt, að þessi undanþága er nú víkkuð hér út þannig, að hún skuli ná yfir allt árið, af því að sá floti, sem þessir vélamenn eiga að vinna á, er nú starfræktur yfir þann tíma, sem hann hefir ekki verið starfræktur á venjulega. Það má segja. að hver stærri fleyta hafi verið sett í gang til þess að flytja fisk til Englands. 1937 var samþ., að veita mætti undanþágu slíka sem þessa um 2. vélstjóra.

En það var annað í ræðu hv. frsm., sem ég held, að stafi af misskilningi, en það er, að nokkur vöntun sé í þessa stétt annarstaðar en á þessum litlu skipum. Mér er ekki kunnugt um, að vöntun sé á lærðum og hæfum mönnum á stærri eimskipin. Sú aukning, sem orðið hefir í vélstjórahópnum, hefir yfirleitt alveg fullnægt þörfinni. Hitt gefur auga leið, að þessir menn leita á stærri skipin, vegna þess að þau gefa lengri atvinnu. Það er í raun og veru ekki um neina vöntun að ræða. Annars getur n. leitað upplýsinga um það, ef þurfa þykir.

En vegna þess, sem hv. frsm. sagði um stéttarsamtök vélstjóra og takmarkanir hjá járnsmiðunum, vil ég segja það, að vei getur verið, að þar lafi kennt óþarflega mikillar þröngsýni hjá þeim, að lofa þeim ekki að uppfyla sínar námsskyldur. En allir, sem ætla að verða vélstjórar, þurfa 4 ára nám til þess að ljúka því verklega, og 2 vetra nám til þess að ljúka því bóklega. Það er sýnilegt, að hver sá, sem ætlar að verða fulllærður vélstjóri, þarf til þess 6 ára nám. En þessi eimskip, sem eru með vélar undir 300 hestöflum, eru yfirleitt gömul, aðkeypt skip, sem lítur út fyrir, að smátt og smátt fara að hverfa úr sögunni. En þau skip, sem koma í staðinn, verða með dieselvélum. Þessi stétt hlýtur því smátt og smátt að hverfa. Allir, sem ætla sér að stunda vélgæzlu sem aðalstarf, verða því að búa sig undir að geta starfað við mótorvélar upp í 400 hestöfl og taka próf þar að lútandi. Síðan tekur vélskólinn við með próf yfir 400 hestöfl.

Ég þarf svo ekki fleira um þetta að segja að sinni.