07.03.1940
Neðri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

47. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum o. fl.

*Flm. (Emil Jónsson):

Það eru nú liðin 5 ár síðan ég flutti hér á Alþ. frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka eignarnámi handa Hafnarfirði Krísuvíkurtorfu. Þetta frv. var þá allmikið rætt, en að því loknu samþ. með þeirri breyt., að tekin voru upp ákvæði um, að afhenda skyldi Gullbringusýslu nokkurn hluta landsins.

Ég þarf ekki að rekja það, hvaða ástæður lágu til grundvallar flutningi málsins, en skal þó aðeins rifja það upp stuttlega. Höfuðástæðurnar voru tvær. Önnur sú, að í kringum Hafnarfjörð er land hrjóstrugt og illa fallið til ræktunar. Það er þess vegna aðkallandi þörf á að fá eitthvert land handa bæjarbúum, sem atvinnulausir eru, til að rækta. Þetta sjónarmið var tekið gilt af Alþ. og frv. samþ. með þeirri breyt., sem ég hefi áður lýst.

Samkvæmt þessum l. skyldi sérstakri n. falið að meta landið, og var síðan meiningin, að þegar matið hefði farið fram, ætti að afhenda þeim 2 aðilum, sem l. gera ráð fyrir að eigi að fá landið frá ríkissjóði, þessar eignir.

Það stóð lengi í þófi um það, hvernig skipta skyldi landinu, en fekkst þó um það samkomulag að lokum, að Gullbringusýsla skyldi fá megnið af óræktanlegu landi jarðanna, en Hafnarfjörður það, sem þá væri eftir. Þótt samkomulag væri um þetta fengið, hefir samt ekki enn orðið af endanlegum skiptum, vegna þess að hæstv. landbrh. taldi, að eins og l. væru orðuð væri ekki fært að skipta landinu á þann hátt, sem samkomulag hefði orðið um milli aðila. Þess vegna er það, að nú er borin fram till. til breyt. á l., sem kveður skýrar á um þetta atriði en áður var.

Ég vil að lokum vænta þess, að þar sem hér er í raun og veru ekki um annað en leiðréttingu á óskýru orðalagi að ræða, þá geti þetta frv. fengið fljóta afgreiðslu hér í d. Ég vil óska, að því verði vísað til 2. umr. og landbn. að lokinni þessari umr.