07.03.1940
Neðri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

47. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Eins og tekið er fram í grg. frv., þá hefir staðið á því um afhendingu þeirra jarða, sem hér um ræðir, að ríkisstj. hefir ekki getað fallizt á að afhenda eignirnar með þeim skilmálum, sem Hafnarfjarðarbær hefir óskað eftir. Ástæðurnar fyrir þessu eru þær, að það er gert ráð fyrir því í l., sem hér er farið fram á að breyta, að 4 landspildur verði teknar eignarnámi, en síðan segir í 2. gr. þessara l.: „Þegar eignarnámið hefir farið fram eftir 1.–3. tölul. 1. gr., skal ríkissjóður selja eða leigja Hafnarfjarðarkaupstað þessi lönd jafnóðum, enda greiði kaupstaðurinn skaðabætur“, o. s. frv. Það er þarna tekið fram, að þegar eignarnámið hefir farið fram, þá skal selja eða leigja Hafnarfjarðarkaupstað þessi lönd. En svo er aftur það að athuga, að þarna er ekki 4. töluliðurinn talinn með, en undir 4. lið eru jarðirnar Krísuvík og Stóri-Nýibær, heldur segir um þetta í 2. gr.: „Afnotarétt jarðanna, sem í 4. tölul. 1. gr. getur, skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað, þannig að hann fái þörf kaupstaðarins fyrir hita, ræktun og sumarbeit fullnægt, en Gullbringusýslu skal afhenda lítt ræktanlegt beitiland jarðanna“. Það er m. ö. o. gert ráð fyrir að taka eignarnámi 4 landsvæði, og um landsvæði 1–3 er svo fyrir mælt, að ríkissjóður skuli selja eða leigja þessi lönd, og það höfum við talið okkur heimilt, en um 4. landsvæðið er sérákvæði. Um það er svo fyrir mælt, að afnotarétt þess skuli afhenda. Þar sem svo er fyrir mælt í öðrum l., að óheimilt sé að selja lönd, sem ríkissjóður á, nema með heimild Alþ., þá leit ríkisstj. svo á, að henni væri óheimilt að afhenda eignaryfirráð yfir Krísuvík og Stóra-Nýjabæ. Þetta ákvæði hlýtur að verða skilið á þennan hátt, annars hefði verið meiningarlaust að ganga frá l. með þessum hætti, að undanskilja þarna 4. liðinn, þegar talað er um afhendingu þessara tveggja jarða. Þetta virðist vera hnitmiðað orðalag með tilliti til þess, að þessar jarðir ætti ekki að selja.

Ég vildi aðeins gefa skýringu á því, að það er eðlilegt, að þessi l. hafi ekki verið framkvæmd að þessu leyti. Það er eingöngu af því, að l. eru þannig orðuð, að ég hefi ekki talið mér heimilt að selja Krísuvík, en ef þær breyt., sem hér er farið fram á, verða að l., þá er ekkert þessu til fyrirstöðu; hvort slíkt er rétt eða rangt, skal ég ekki láta neina skoðun í ljós um.