07.03.1940
Neðri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

47. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum o. fl.

*Flm. (Emil Jónsson):

Þetta kemur mér ákaflega kynduglega fyrir sjónir. Ég hefi nú til frekari vissu farið í gegnum umr. um þetta mál í þingtíðindunum, til þess að líta eftir, hvort nokkuð hefði komið fram, er gæti bent til þess, sem hv. þm. Mýr. heldur fram. (BÁ: Það eru l. sjálf). L. sjálf eru að vísu orðuð þannig, en í umr., sem áður hafa farið fram um þetta mál, hefir aldrei komið fram annað en að Gullbringusýsla og Hafnarfjarðarkaupstaður ættu að skipta þeim löndum, sem hér um ræðir. En þá hnitmiðun, sem hæstv. forsrh. gaf í skyn í sinni ræðu og hv. þm. Mýr. vék nú að, hefi ég aldrei getað orðið var við. Gr. er þvert á móti að mínu áliti klaufalega orðuð og í henni er ekki sagt frá þeim vilja, er þar lá til grundvallar. En mér vitanlega hefir aldrei komið fram neinn þingvilji um þetta, hvorki í umr.þskj.; þetta ákvæði hefir verið talið mjög teygjanlegt; og e. t. v. mætti, væri það teygt út í yztu æsar, telja, að Hafnarfjarðarkaupstaður ætti einn að hafa allt landið til þess að þörfum hans yrði fullnægt. Úr þessu verður aldrei skorið með vissu, og væri hægt að gera það að þrætuefni til eilífs nóns með því orðalagi, sem nú er í l. En l. voru sett með það fyrir augum, að enginn þriðji aðili, hvorki ríkissjóður né aðrir, kæmi til greina. Þessi brtt. er borin fram með það fyrir augum, að þau sjónarmið, sem ég tel, að samkomulag hafi verið um þegar l. voru sett, komi skýrar fram. Ég ætla ekki að fara inn á þær breyt., en ég vildi aðeins láta þetta, sem ég nú hefi sagt, koma fram sem svar við ræðu hv. þm. Mýr.