13.03.1940
Efri deild: 16. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

20. mál, atvinna við siglingar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er út af fyrirspurn hv. frsm., þar sem hann var að spyrja, hvort mér væri ekki kunnugt um, að menn væru starfandi á skipum sem 2. vélstjórar, þó að þeir hefðu ekki réttindi. Ég skal svara því, að mér er ekki kunnugt um það. En hann mun eiga við, að það mun hafa viljað til um jólaleytið, að á eitt skip fór maður, sem mun ekki hafa haft réttindi, en eftir því, sem ég veit bezt, er hann ekki lögskráður. Nú er það í l., að þegar skip fer úr höfn og skráningarstofa er lokuð, þá er nóg að tilkynna með bréfi til skráningarstjóra, að maður sé farinn, og mæla svo lög fyrir, að hann skuli skráður, þegar hann kemur næst í höfn. Þannig mun hafa verið í þetta skipti. Maðurinn fór án vitundar skráningarstjóra. Enginn skráningarstjóri hafði leyfi til að skrá manninn, fyrst hann hafði ekki réttindi lögum samkvæmt. Þetta er því lögbrot.

Ég sé, að hér eru komin til mín tvö dæmi. Annað er það, sem ég var að lýsa. Skráningarstjóri segir um það ekkert annað en að það sé samkv. skipshafnarskrá. Skipstjóri hefir sett hann i skrá, þegar hann kom um borð. Mér er ekki kunnugt um hitt dæmið, en þar mun hafa staðið líkt á. Þetta mun hafa verið um jólin og mun vera af því, að menn hafa viljað taka sér frí, en ekki af hinu, að menn hafi ekki verið til.