15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

101. mál, jarðir í Ölfusi

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég vil fyrst segja örfá orð út af brtt. á þskj. 408, sem þeir hafa flutt hv. 8. landsk. og hv. þm. Ak., og hv. fyrri flm. mælti fyrir hér á síðasta eða næstsíðasta fundi d., þegar þetta mál var til umr. Till. þessara hv. þm. fara fram á það að fella niður 2. gr. frv., þar sem ríkisstj. er heimilað að taka þessar jarðir eignarnámi, eða hluta úr þeim, ef þörf krefur. Og í öðru lagi vilja þeir skjóta inn í fyrri gr. frv., þar sem heimild er gefin til þess að kaupa þessar jarðir eða hluta úr þeim, að þetta skuli því aðeins keypt, að um það náist samkomulag við eigendur.

Ég mæli á móti þessari brtt., því að ég álít, að með því að samþ. hana sé frv., þó samþ. væri, gert einskis virði. Það er ómögulegt að semja við eigendur á þeim grundvelli, þegar ríkið er annarsvegar, án þess að ríkið hafi eignarnámsheimild á bak við. Það vita allir, að alltaf þegar ríkið ætlar að gerast kaupandi að einhverju, og þá helzt fasteignum, þá er reynt að setja verðið svo hátt sem mögulegt er. Nú er vitað, að okkar óræktaða land er í sjálfu sér verðlaust, því það fasteignamat, sem hér á landi hefir verið gert á jörðum, er vanalega miðað einungis við þau mannvirki, sem gerð hafa verið á jörðunum. En svo þegar á að selja óræktaða landskika, þá er vanalega sett upp gríðar hátt verð.

Nú er hér ekki farið fram á að selja þessar jarðir eða jarðahluta án þess að fullt verð komi fyrir. Og reynslan um eignarnám hefir verið sú, að þeir, sem af hefir verið keypt, hafa ekki yfir neinu að kvarta að neinu leyti. Enda hygg ég að brtt. sú, sem landbn. flutti um að fella úr frv. Þórustaði, Árbæ og Helli, hafi fullnægt að nokkru leyti óskum hv. 8. landsk., sem er 1. flm. brtt. á þskj. 408. En það er vitað um Hvamm, að sú jörð er í eigu manns, sem hefir einhvern stærsta rekstur hér í Reykjavík. Á þeirri jörð er lítið bú, en hinsvegar eitthvert allra ákjósanlegasta ræktunarland, sem finnst hér á landi, sem er eins og sjálfkjörið til þess að taka það til framræslu. Þess vegna get ég ekki skilið, að nokkur maður, þó viðkvæmur sé fyrir því að taka lönd af bændum, geti verið á móti því, að hluti af Hvammi verði tekinn á þennan hátt til ræktunar. Af Kirkjuferju má sömuleiðis áreiðanlega taka nokkuð mikið án þess að skerða þann búrekstur, sem hægt er að hafa á jörðinni, og gildir það sama í því efni um þá jörð eins og um Hvamm. Því að það er svo með þessa mýraflóa áður en þeir eru þurrkaðir og ræktaðir, að þeir eru verðlítið land. Það er ekki hægt að beita kúm á það. Stóðhross geta að vísu gengið á því vetur og sumar eitthvað, og eitthvað má beita fé á það. En ef eitthvað á að gera í ræktunarmálunum hér, hvar á þá að bera niður, ef ekki má taka nokkra jörð, sem er í eigu nokkurs bónda, hversu lítið sem hún er notuð og hversu góð skilyrði sem hún hefir til ræktunar?

Mér virðist frv. þetta svo hóflegt, að það geti ekki meitt nokkurn mann, enda þótt viðkvæmur sé um þessa hluti. Og ég er mjög þakklátur fyrir afstöðu hv. þm. Borgf. í þessu máli, af því að ég veit, að hann hefir yfirleitt þá skoðun, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að það sé til óheilla, að jarðir lendi í stórum stíl í eigu ríkisins. Og ég get verið þeim hv. þm. sammála um það, að heppilegast og æskilegast væri, ef unnt væri, að hver bóndi ætti sína jörð, og að ekki hvíldu meiri skuldir á henni en svo, að hann gæti staðið straum af þeim að öllu leyti. En sorgleg reynsla hefir leitt í ljós, að ýmsir, sem hafa eignazt jarðir, hafa kostað til umbóta á þeim, sem hefir sett þá í skuldir, sem svo hafa orðið þeim um megn og þeir hafa þurft að fá, beint eða óbeint, hjálp þess opinbera til þess að geta staðið straum af þessum skuldum.

Nú er það alls ekki meiningin, að það eigi að hætta þeim búskap, sem um er að ræða nú á þessum jörðum, heldur á aðeins að taka það land frá þessum jörðum, sem þær geta misst. Og það er hugmyndin að nota þarna að nokkru leyti engjarnar í Ölfusi, sem nú er verið að þurrka og ríkið leggur fé til að ræsa fram, og á stöðum eins og í Flóanum, þar sem búið er að verja fleiri millj. kr. í Flóaáveituna, — ef ekki á að gera eitthvað til þess að fjölga býlum á þeim stöðum, þá veit ég ekki til hvers lagt hefir verið fram stórfé til margháttaðra umbóta þar úr ríkissjóði. Því að ef ekki á að auka framleiðslu við það, þá hefði áreiðanlega aldrei átt að leggja neitt fé fram í þessu skyni.

Ég sé, að hv. 6. þm. Reykv. er genginn burt úr d. Mig langaði þó til að segja örfá orð út af ræðu hans áðan, af því að mér virtist kenna allmikils misskilnings í því, sem hann sagði. Það, sem mér virtist sérstaklega vaka fyrir hv. 6. þm. Reykv., var, að hann líti svo á, að þetta frv. væri ný tilraun til þess að sölsa undir sig jarðir frá bændum. Hafi hv. þm. álitið þetta, þá er það hinn mesti misskilningur. Því að heimildin til þess að taka þessi lönd eignarnámi er aðeins gerð til þess að unnt sé að hefja þarna framkvæmdir. Og það er alls ekki tilgangurinn að taka af þessum jörðum annað en það, sem þær geta misst án þess að það þurfi að skerða um of þann búrekstur, sem þar er nú. Þess vegna fellur það allt um sjálft sig, sem þessi hv. þm. sagði um það, að þetta væri tilraun til þess að koma jörðum úr sjálfsábúð. En það er ómögulegt að hefja ræktun af hálfu þess opinbera öðruvísi en að það eigi landið, sem rækta á. Þetta er alveg hliðstætt við það, sem gert er með sandgræðslul. Þegar Sandgræðslan tekur land til ræktunar, verður hún að fá full umráð yfir landinu. Það er ekki af því opinbera hægt að hefja skipulagðar umbætur í þessum efnum án þess að fenginn sé fyrst fullur umráðaréttur yfir landinu. Og í þessu tilfelli er það einnig ómögulegt öðruvísi en að ríkið eigi landið. Þess vegna álít ég, að það eigi alls ekki við nú að fara nokkuð að ræða um það, hvort heppilegra sé, að bændur séu sjálfseignarbændur eða leiguliðar. Það kemur þessu máli í raun og veru ekkert við.

Þá fór hv. 6. þm. Reykv. nokkrum orðum um nýbýli, og þar kenndi einnig mjög mikils misskilnings hjá honum. Eftir því sem hann talaði, þá virtist hann líta svo á, að það hefðu einungis verið stofnuð nýbýli á þann hátt, að þau hefðu aðeins örsmáa landskika, — jafnframt því, sagði hann, sem ýmsar jarðir væru að fara í eyði, og kallaði hann þessa smábletti kollubletti. Yfirleitt hefir jörðum verið skipt til helminga, eða þriðjungi jarðar hefir verið skipt úr, þar sem reist hafa verið nýbýli. Þar hafa svo myndazt sjálfstæð býli, hliðstæð við þau mörg hundruð eða þúsund býla, sem til eru hér á landi. Hitt er líka til, að stofnuð hafi verið býli á litlu landi, og það of litlu landi, sem stafað hefir af því, að svo erfitt er að fá land til nýbýla. Íslenzkir bændur eru svo ótrúlega sárir á sínu landi. Við, sem með þessi nýbýlamál höfum haft að gera, höfum oft lent í hörðu við menn, sem hafa viljað láta syni sína fá land. Þeir hafa viljað láta einn fjórða eða einn þriðja hluta af jörð sinni, en við höfum viljað láta þá leggja til helming af landi sínu.

Þegar byggð hafa verið nýbýli á mjög litlum blettum, stafar það af því, að ýmsir menn hafa mælt með því, að það væri gert. Ég ætla ekki að fara að deila á hv. 6. þm. Reykv. fyrir slíkt, en hann hefir á sínum tíma mælt með því, að byggt væri nýbýli á mjög litlu landi, og jafnvel of litlu landi. Þannig getur það verið, að ýmsir mætir menn mæli með slíku. En að það sé almenna reglan, er fjarri öllum sanni.

Þá talaði hv. 6. þm. Reykv. um það, hve fráleitt það væri að vera að fjölga býlum jafnhliða því, sem býli í sveitum landsins færu í eyði. En það er nú þessi gamla saga, að það er alltaf töluvert af býlum á hverju ári, sem fer í eyði, sem varir um lengri eða skemmri tíma. Og vitanlega mun það alltaf hafa átt sér stað, síðan sveitir landsins byggðust, að byggðin hafi færzt nokkuð til. Jarðir í afdölum og upp til heiða hafa lagzt í eyði jafnhliða því, sem annarstaðar hafa komið nýbýli. En hvað sem því líður, eru það miklu færri, sem geta fengið býli til ábúðar, heldur en vilja. A. m. k. koma daglega margir menn til okkar, sem höfum með nýbýlamálin að gera, og eru að spyrjast fyrir um jarðir, og það virðist vera mikil eftirspurn eftir þeim. Og að hafa á móti því, að býlum sé fjölgað, af því að ekki sé unnt eða miklum vandkvæðum bundið að selja afurðir bænda, það virðist mér ekki nein rök. Því að ef við ætluðum að rökstyðja þannig, þá er eins og við ætluðum að stöðva lífið hér á landi. Í kaupstöðunum er fjöldi fólks atvinnulaus, og ef ekki mætti fjölga atvinnurekendum í sveitum landsins neitt, þá veit ég ekki, hvað ætti að gera við fólkið.

Hv. 6. þm. Reykv. lagði einnig áherzlu á það, að hér mundi vaka fyrir mönnum með þessu frv. að flytja vandræðafólk úr kaupstöðunum og upp í sveit á þessi nýbýli. Allt annað vakir nú fyrir mér í þessu máli, sem sé það, að það fólk, sem er alið upp í sveit, geti haft möguleika til þess að haldast í sveitinni. Og skoðun mín er sú viðkomandi þessari ræktun í Ölfusinu, sem þetta frv. stefnir að, að þeir, sem alizt hafa upp í Ölfusinu, eigi að sjálfsögðu að sitja fyrir um að fá þau býli, sem þarna kunna að verða reist. Þó að þarna sé stofnað til nokkurra nýbýla, þá þarf ekki að gera ráð fyrir að það þurfi að flytja fólk úr kaupstöðunum til að setja á þau, heldur mun vera nóg fólk til í sveitinni til þess.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það væri ekki land, sem vantaði til þess að hægt væri að stofna býli í sveitum landsins. En það er nú samt það, sem vantar. Það er fjöldi fólks, sem hrökklast úr sveitinni af því að það hefir vantað land. Það hefir vantað viljann hjá bændum til þess að þrengja að sér og skipta úr jörðum sínum. Vitanlega hefir menn líka vantað áhöld og áhöfn. En það er víst, að fjöldi fólks hefir flúið úr sveitinni vegna þess, að það hefir ekki haft aðgang að landi. Þetta spursmál verður að leysa, og hér er um að ræða aðeins litla tilraun í þessu efni. Ég hefi heldur engan heyrt halda því fram, að þessi staður væri ekki heppilega valinn, heldur þvert á móti. Ég vænti því, að þrátt fyrir þessi andmæli, sem ég nú hefi svarað, þá verði frv. samþ. með þeim brtt., sem n. hefir mælt með.