19.04.1940
Efri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

65. mál, ríkisborgararéttur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil ekki blanda mér inn í deilur um þetta mál. Ég mælti með því í vetur, að þessi Óskar Sövik fengi ríkisborgararétt, og þá lágu ekki þau gögn fyrir, sem menn eru nú ekki sammála um. Ég legg mikið upp úr því, að maðurinn hafi hegningarvottorð, en þar sem nú tekur ekki nema einn dag að afla sér þess, ætti ekki að standa á því. Mér er kunnugt um, að í Danmörku er dómseftirlitið fyrir allt landið á einum stað, og þar er hægt að fá hegningarvottorð fyrir alla danska borgara. Það ætti því að vera mjög auðvelt að afla sér þess með símskeyti. Ég ætla ekki að fara inn á þetta mál, en vil aðeins taka fram, að Alþ. verður nú samkvæmt ákvæði í l., sem hér um gilda, að vera kviðdómari í því, hvenær þau skilyrði eru fyrir hendi, sem krafizt er. Það er ekki hægt undir þessum kringumstæðum að heimta alveg „júridiskar“ sannanir, eins og fyrir venjulegum dómstóli. Menn hugsa ekki út í það að afla sér þessara sönnunargagna, sem þeir myndu ekki þurfa að nota fyrr en eftir 10 ár. En hér verður að fara eftir því, sem er satt og rétt í þeim gögnum, sem fyrir liggja um þessi mál. Umsækjandinn hefir vegabréf með höndum, sem er óræk sönnun þess, að hann hafi farið hingað heim á hinum tiltekna tíma. Hann fer að vinna við rafveitur, og mönnum er kunnugt um, að slík vinna útheimtir stöðug ferðalög. Þess vegna verður hann ekki strax heimilisfastur hér og getur ekki komið með vottorð um lögheimili hér á landi fyrr en 1936. Hann tekur þannig til orða, að hann hafi verið „hjemmehörende“ í Noregi, en við vitum, að hann dvelur hér, þó að honum hafi láðst að fá sér lögheimili í landinu. Það er mjög algengt um Íslendinga, sem dvelja langdvölum úti í löndum, að þeir halda áfram að eiga lögheimili í sínu byggðarlagi hér heima. Stundum er heimilisfangið ekki látið falla niður af vangá, jafnvel þó að maðurinn borgi sína skatta og skyldur annarstaðar. Þegar öll þessi atriði eru tekin til greina, er ekki vafi á því, að mikið má um þetta mál deila. Það, sem kom mér aðallega til að minnast á þetta, er símskeyti, sem okkur hefir borizt. Þar er látið orð falla um einhvern orðróm, sem kynni að ganga, og vil ég skýra þetta nánar. Deila hefir risið upp milli rafveitunnar á Blönduósi og eigenda ár þeirrar, sem vatnið er tekið úr. Mikið vatn hefir þurft til rafveitunnar, svo að nota varð mestallt vatnsmagn árinnar. Nú hagar svo til, að lax gengur upp í ána, en sökum þess, hve vatnið er lítið, hefir laxveiði stórlega minnkað síðan rafveitan tók til starfa. Bændur þeir, sem eiga ána, hafa krafizt þess, að nægilegt vatn gæti runnið, til þess að laxinn kæmist óhindraður upp í vatnið til að hrygna. Af þessu hefir skapazt mikil deila og gremja meðal bændanna, sem hefir að nokkru leyti bitnað á rafveitustjóranum. Mér er þetta persónulega kunnugt, því að stjórnarráðið hefir þurft að jafna málið milli þessara aðila. Þarna hefir skapazt þræta út af laxinum, eins og oft áður hefir átt sér stað á okkar landi, því að laxinn er okkar mesta þrætuepli. Aðrar orsakir til óánægju er þarna ekki um að ræða, og þetta er sá orðrómur, sem minnzt var á í símskeytinu.

Ég vil líka benda á það atriði, að nú er Noregur í stríði, og það er á valdi Norðmanna sjálfra, hvort þeir leyfa honum að afsala sér norskum ríkisborgararéttindum. Ég held líka, að enginn vafi sé á því, að vottorðið eigi við þennan mann. Er tæplega hugsanlegt, að annar maður heiti þessu sama nafni og sé frá sama byggðarlagi, enda sýnir vegabréfið, að ekki getur verið um annan mann að ræða. Nú verðum við að taka tillit til þess, að ef maðurinn hefði unnið í þágu ríkisins, þurfti hann aðeins að eiga hér heima í 5 ár. Hann hefir að vísu ekki verið starfsmaður ríkisins, en unnið þó í þágu hins opinbera. Þó að ekki sé tekið þannig til orða í l., má um það deila, hvort menn, sem hafa unnið í þágu bæjar- og sveitarfélaga, komi í þessu tilfelli undir sama ákvæði og starfsmenn ríkisins. Það hefir líka mikið að segja, að allir, sem hafa haft hann í þjónustu sinni, láta vel yfir störfum hans.

Ég býst ekki við að taka frekari þátt í þessum umr. Ég tel, að þennan Nielsen þyrfti ekki að skorta hegningarvottorðið, og gæti afgreiðsla málsins beðið einn eða tvo daga, svo að hann gæti útvegað sér það frá Danmörku.