26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Frsm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti! Fjhn. hefir haft frv. þetta til athugunar, en þó ekki ennþá tekið til athugunar brtt. frá hv. 1. flm. á þskj. 156. N. hefir skilað nál. á þskj. 148, og get ég vísað til þess. Tveir nm. skrifa undir nál. með fyrirvara, og hygg ég, að fyrirvari annars þeirra sé byggður á því, að hann telji ekki rétt að gera breyt. á tollskránni, sem samþ. var í fyrra.

Eins og ég skýrði nokkuð við 1. umr. málsins, þá er efni þessa frv. það, að inn í tollskrána komi heimild fyrir ríkisstj. til þess að innheimta aðflutningsgjöld af efni í kassa um fisk til útflutnings eins og um almennan trjávið væri að ræða. Það hefir verið nokkuð um þetta deilt. Ýmsir hafa haldið því fram, að með því að gefa þessa heimild og hún væri notuð, þá gæti það orðið til þess, að tollur af hálfunnum kössum yrði lægri en tollur á trjávið, sem fluttur er inn. Ég hygg, að þetta sé byggt á misskilningi, sem stafar aðallega af því, að alltaf hefir verið talað um hálfunnið efni, en frvgr. talar eingöngu um kassaefni, sem ekki sé unnið meira en það, að það sé sagað niður í hæfilegar lengdir, en sé óunnið að öðru leyti. Það virðist vera óeðlilegt að taka miklu hærri toll af þessu efni, þó að það sé sagað niður í hæfilegar lengdir og svo sett saman á þeim stað, þar sem á að nota það.

Við höfum átt viðtal við forstjóra þess fyrirtækis í Rvík, sem mest hefir með þetta að gera, og n. hefir orðið ásátt um að bæta 10% við toll trjáviðarins, en n. álítur, að efnið muni ekki rýrna við niðursögunina nema þetta, og varla svo mikið. Með því að ákveða, að tollurinn á þessu kassaefni sé nokkuð hærri en á trjávið innfluttum, sem sagaður er niður í kassa, þá er það fyrirbyggt, að tollur af hálfunnu efni verði lægri en af óunnu efni. Það má líka benda á, að ef efni er sagað niður í Rvík og flutt út á land, þá bætist við það flutningskostnaður, en hann er mjög tilfinnanlegur.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að svo komnu máli. Ég vil ítreka það, að fjhn. hefir ekki tekið til athugunar brtt. hv. 1. flm. á þskj. 185, en hún er um það, að á eftir d-lið komi e-liður, um það, að innheimta aðeins 2% verðtoll og 7 aura á kíló í þungatoll af flugeldum, sem notaðir eru til skipa og skylt er að hafa um borð l. samkvæmt. Tollur á þessa vöru hefir verið settur 1.20 kr. á kíló og 90% verðtollur. Hann hefir verið settur með það fyrir augum, að hér væri einungis um barnaleikfang að ræða, enda mun lítill hluti innflutningsins hafa verið notaður um borð í skipum.

Hv. flm. mun geta, ef honum sýnist svo, tekið till. aftur til 3. umr., ef fjhn. tæki hana þá til athugunar milli 2. og 3. umr.

Ég vænti svo þess, að hv. þd. fallist á að samþ. frv. með þeirri breyt., sem fjhn. hefir lagt til í nál. sínu.