26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég hafði nú satt að segja ekki búizt við því, að ég mundi koma hv. þdm. í eins mikil og alvarleg þankabrot út af svona litlu máli eins og orðið er. En mér finnst þeim ákaflega erfitt um að hrófla við tollskránni, þótt sýnt sé, í fyrsta lagi að tollurinn er ósanngjarn, og í öðru lagi, að Alþingi hefir samþ. — ekki einu sinni, heldur tvisvar — heimild í fjárl. til þess að reikna lægri toll af þessu kassaefni. Hér er ekki farið fram á annað en það, sem þessir sömu menn hafa samþ. tvisvar sinnum áður. Ég hefi ekki við höndina nákvæman samanburð á því, hvað jafnstórir kassar frá kassagerðinni hér kosta fluttir út á land, t. d. til Vestmannaeyja, eins og kassar þeir, sem fást tilsniðnir frá útlöndum. En það er annar munur, sem ég get bent á skv. símskeyti frá bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum. Tollur af 38 „standard“ af tilsniðnu kassaefni var 2086 kr., en af þessu sama timbri ber nú að greiða 5684 kr. Þetta er samkv. símskeyti, sem ég hefi frá yfirvaldinu á staðnum. Ég vil nú spyrja þá menn, sem finnst þetta atriði ekki neitt verulegt, hvort þeim sé sama, hvort þeir ættu að borga rúmlega 2 þús. kr. í toll eða næstum 6 þús. kr. Mér er ekki sama, og ég tel, að þeim mundi ekki vera sama, ef þeir hefðu sjónarmið þeirra, sem hafa með þetta að gera. Það er náttúrlega gott að hafa umhyggju fyrir kassagerðinni hér í Reykjavík, en sú umhyggja má ekki ganga alveg taumlaust út yfir þá, sem afla landinu gjaldeyris. Ég vil halda því fram, að þegar ég óska eftir hæfilegum tolli fyrir fiskframleiðendur, þá séu rök mín eins góð eins og kassagerðarinnar. 70 þús. kr. eru miklir peningar, en ég get sagt hv. þdm. það, að mótorbátur, sem fiskar 5 þús. skipp., gefur af sér um 20 þús. kr. í vinnulaun, og það er aðeins einn einasti bátur, með þeim vinnulaunum, sem nú tíðkast. Ég verð þess vegna að beina því til þeirra manna, sem bera kassagerðina svo mjög fyrir brjósti, að þeir athugi líka hag þeirra manna, sem flytja út vörur og afla landinu gjaldeyris. Menn mega ekki gera sér í hugarlund, að það sé sama, hverjir kassarnir eru, sama hvort þeir eru notaðir utan um dýra vöru eða vöru, sem selja á fyrir billegan pening, en fiskur, sem fluttur er út í kössum, selst ekki alltaf fyrir sama verð. Hér er ekki átt við, að viðurinn verði unninn á neinn annan hátt en þann, að borðin séu söguð sundur í búta. En mér þykir það einkennileg tollalöggjöf, ef ég á að borga þrisvar sinnum meira fyrir eitt borð af því að það kemur sagað sundur í 3 eða 4 parta, en það er það, sem tollskráin fer fram á. Hv. 1. þm. Eyf. leit þannig á, að það væri mjög illt að þurfa að breyta tollskránni. Fyrir honum er höfuðmótbáran sú, að hann vill ekki fara að klandra við þennan grip, sem heitir tollskrá. En hann er nú afarlítið klandraður með því, þó sett sé inn svona lítil undanþága.

Annars held ég, að það ætti ekki að vera regla hjá Alþingi að svara því til, að ekki mætti lagfæra galla á lögum af því að þau væru nýsett. Ég er þvert á móti á þeirri skoðun, að það skuli alltaf hafa það, sem sannara reynist, jafnvel þótt það þurfi að breyta ákvæðum í löggjöf, sem ekki er nema nokkurra mánaða gömul. Ég tel sem sagt, þó ég hafi verið þolinmóður í þessu máli og ekki „agiterað“ fyrir því hér í d. eins og ég veit að búið er að gera af öðrum, að þeir menn, sem óska eftir að fá leiðrétt ranglæti tollalöggjafarinnar, eigi eins mikinn rétt á að vera heyrðir eins og þeir, sem standa fyrir kassagerðum í landinu.