07.03.1940
Efri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Flm. (Magnús Jónsson):

Ég get í raun og veru verið hæstv. viðskmrh. þakklátur fyrir undirtektir hans um málið almennt. Hann andmælti á engan hátt þessari tilraun, sem hér er gerð til þess að fá lausn á þessu máli, enda þótt hann hreyfði nokkrum aths. um einstök atriði málsins. Ég heyrði, að hann var því meðmæltur, að þetta mál fengi athugun í n. Við flm. munum að sjálfsögðu ræða nánar ýmis fyrirkomulagsatriði, sem okkur þykja ekki skemma þann megintilgang, sem í frv. felst. Mér heyrðist hinsvegar á hæstv. ráðh., að hann myndi verða mjög óánægður með það, að farið yrði að reyna að losna við þessar hömlur. Það væri annars nógu gaman að vita, hvernig ástandið í landinu ætti að vera, til þess að hæstv. ráðh. segði, að hægt væri að afnema þessar hömlur; það yrði nógu skrítið ástand. Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann áliti, að þessi höft væru eitthvað, sem æfinlega þyrfti að vera. Nei, ég er þarna alveg á öndverðum meiði við hæstv. ráðh. Ég álít, að þessi innflutningshöft séu hreinasta neyðarúrræði, sem við þurfum að losa okkur við svo fljótt sem ástæður leyfa.

Hæstv. ráðh. tók til meðferðar þrjú atriði. Hann talaði um, að skipun n. eftir frv. okkar væri hæpin framför frá því, sem nú er, þar sem þessir þrír menn skyldu ekki lengur skipaðir eftir tilnefningu ráðh. Hann sagði, að það þekktist hvergi, að ráðh., sem bæri hina pólitísku ábyrgð fyrir Alþingi, hefði ekki meðferð málanna í sinni hendi. Annars var mest af því, sem hæstv. ráðh. sagði um skipun n. og ábyrgðina gagnvart Alþ., eintómur orðaleikur. Það, sem hér skiptir máli, er það, hvort n. er líkleg til þess að leysa þessi verkefni, svo að sæmilega fari úr hendi.

Það, sem fyrir mér er aðalatriðið, er það að vita, hvort þeir aðilar, sem hér hefir verið ágreiningur á milli, geta ekki leyst þessi mál sjálfir. Það hafa mörg mál verið leyst þannig. Þetta er smávægileg breyt., en er samt tilraun til þess að leysa þetta mál.

Þá kem ég að því atriði í ræðu hæstv. ráðh., þar sem hann talaði um innflutninginn, og er það miklu veigameira atriði. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að talsverður innflutningur snertir ekki þá aðila, sem frv. ráðgerir, að hefðu framkvæmd þessara mála með höndum, kaupmenn og kaupfélög. Það eru, eins og hæstv. ráðh. benti á, t. d. skip, vélar til iðnaðar o. fl., en þetta ætti að vera hægt að tryggja betur í meðferð málsins í þinginu.

Þá er annað atriði, er ráðh. minntist á og ég get skilið, að honum sem viðskmrh. sé viðkvæmt mál. Ég get vel ímyndað mér, að honum geti fundizt, að verið sé að svipta hann einhverju valdi, og sennilega þá um leið ábyrgðinni á þessum málum. Hann sagði, að þess mundu engin dæmi í íslenzkri löggjöf, að maður væri skipaður í embætti án þess að hann væri skipaður af ráðh. eða á hans ábyrgð. Ég skal ekki fullyrða neitt um þetta. Ég er ekki svo lögfróður, að ég viti, hvort þetta er í l. Ég hefi séð, að í frv. er talað um, að skipun ákveðinna manna skuli fara fram á ráðherrafundi. Ég má segja, að í frv. um hæstarétt, þá hafi verið talað um, að skipun hæstaréttardómara skuli fara fram á ráðherrafundi. Ég þori ekki að fullyrða, hvort það hefir verið sett þannig í l. Ég veit, að fjöldi manna, sem skipaður er í embætti, er skipaður með samkomulagi milli ráðh. Við skulum taka t. d. útflutningsnefnd. Ég hygg, að hún sé skipuð af einum ráðh. með fullu samkomulagi hinna, og hygg ég, að það sé gert án þess að rýrt sé nokkuð vald eða ábyrgð þess ráðh., sem sérstaklega fer með þann málaflokk. Ég veit ekki, hvernig þetta verður skilið hér, hvort ráðh. eigi allir að skrifa undir skipun oddamanns.

Þegar í l. stendur, að hæstiréttur skuli tilnefna oddamann, þá er ekki tekið fram, á hvers ábyrgð það skuli vera. Það gæti verið, að hæstiréttur væri skipaður 5, 7 eða 9 mönnum, sem samt ættu að skipa oddamann.

Það er ómögulegt, að ríkisstj. ein sé þannig skipuð mönnum, að þeir geti ekki komið sér saman um nokkurn hlut. Það mætti sjálfsagt ákveða það í 1., að skipunin væri undirskrifuð af viðskmrh. Slíkt er algengt, en það þótti einkennilegt, þegar það kom fram fyrst. Pétur biskup spurði, þegar það var leitt í l., að löglega kosinn prestur skyldi skipaður prestur, hvað ætti að gera með að skipa þá, þar sem það væri skylda.

Það eru því fordæmi fyrir því, að einn aðili ræður, en annar skal skipa. Hér er að ræða um þá aðferð, að samkomulag verði um þetta milli ráðh., en hinsvegar getur einn ráðh. skrifað undir skipunina, eða sá ráðh., sem þetta heyrir undir.

Ég get ekki skilið í öðru en ráðh. geti komið sér saman um þetta. Ég verð að segja fyrir mig, að ég held, að ég missi allt traust á ríkisstj., ef svona mál á að stranda á því, að ráðh. geti ekki komið sér saman um að skipa einn mann í þessa nefnd. Það er mikið undir því komið, að þarna sé að ræða um mann, sem hefir traust beggja aðila.

Hæstv. ráðh. sagði, að stj. gæti eins leyst þetta mál eins og skipað þennan mann. En mér finnst það mikill munur, hvort flokkarnir koma sér saman um ákveðna lausn í eitt skipti fyrir öll á þann hátt að skipa oddamann, sem gæti miðlað á milli, svo góð samvinna gæti verið í nefndinni. Hér er búið að færa sviðið svo mikið saman, að það er ekki ábyrgðarlaust, ef menn geta þá ekki komið sér saman. Mér er spurn: Hvernig á þá að leysa ágreiningsmál, ef ekki er hægt að sýna mönnum það mikið traust, að 5 ráðh. eigi að geta komið sér saman um að skipa í ekki svæsnara deilumáli en þetta er, einn mann, sem hafi traust allra til að gera rétt.

Hæstv. ráðh. minntist á afstöðu bankanna og þótti honum þeirra vald allmikið. Mér þótti að því leyti gott að heyra þetta, að ég bjóst jafnvel við, að hann áliti, að bankarnir væru með þessu settir of mikið út úr spilinu. Ég hygg, að þetta sé vald, sem bankarnir hafa, að ráða yfir efnum bankanna. Hér er ákvæðið ekki annað en praktísk ráðstöfun, þar sem bankarnir hafa fulltrúa, sem fylgjast með í þessum málum, til þess að samkomulagið við innflutningsnefnd sé greiðara en annars.

Þá var þriðja atriðið, sem hæstv. ráðh. kom inn á, hinar nýju starfsreglur, sem semja ætti. Hæstv. ráðh. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort ég teldi, að ef þetta frv. yrði samþ., þá gætu samt starfsreglur gjaldeyris- og innflutningsnefndar að því er snertir höfðatöluregluna verið óbreyttar. Ég get svarað því hiklaust, að allar þær reglur, sem tryggja mönnum réttlæti, fái að vera óbreyttar.

Ég gerði ráðstafanir til þess að fá þessar starfsreglur, svo ég gæti lesið þær, en ég fékk þá að vita, að þær hafa aldrei verið gefnar út. Ég hefi því ekki lesið þær, svo ég tala eins og blindur maður um lit, ef ég á að fara að láta í ljós skoðun mína á því, hvaða áhrif þetta frv. ætti að hafa á þessar reglur. Mér hefir samt skilizt, eftir því sem hæstv. ráðh. sagði um reglurnar, að þær væru nokkuð einhliða, að þær tryggðu það helzt, að þeir, sem vilja fara frá kaupmönnum og yfir í kaupfél., geti gert það. Mér finnst, að þær eigi eins að tryggja það, að þeir, sem hafa skipt við kaupfélög, en vilja fara yfir til kaupmanna, geti líka gert það. Þær eiga að vera þannig, að menn geti verzlað sem frjálsast með þær vörur, sem flytjast til landsins. Þessar reglur mega heita eins ljótu nafni og menn vilja fyrir mér, ef þær aðeins tryggja þetta. Ég held, að menn hljóti að vera sammála um það, að þessar reglur eigi að vera þannig, að þær tryggi, að menn megi verzla hvar sem er með þær vörur, sem á annað borð eru fluttar til landsins. Þær eiga að tryggja það, að menn geti flutt sig milli verzlana, t. d. frá kaupmönnum yfir til kaupfélaga og líka frá kaupfélögum yfir til kaupmanna.

Ef starfsreglurnar tryggja þetta, þá mega þær vera óbreyttar, annars verður að breyta þeim.

Ég hefi heyrt, að hjá Dönum, sem hæstv. ráðh. vitnaði dálítið í, sé þessu þannig fyrir komið, að þar sé innflutningskvótakerfi, sem jafnframt því að tryggja þeim mönnum, sem flutt hafa inn, áður en höftin komu, hlutdeild í innflutningnum í samræmi við það, sem þeirra innflutningur var, tryggir um leið eðlilega nýsköpun í verzluninni með því að nokkuð af gjaldeyrinum eða innflutningsleyfunum er tekið frá og ætlað til nýrra fyrirtækja eða annars, sem miðla þarf milli til þess að viðskiptin geti verið nokkuð eðlileg.

Mér finnst þetta sannsýnilegasta lausnin til þess að gera sem minnsta árekstra og sem minnsta óánægju.

Mér þykir vænt um þá viðurkenningu, sem hæstv. ráðh. gaf um þetta ákvæði l. Hann sagði, að það liti sæmilega út. Já, það lítur sæmilega út, að ein og sama regla gildi um úthlutunina, hver svo sem í hlut á. Það er þá leiðinlegt að vilja strax gera undantekningar, eins og mér virtist hann vilja. Ég ætla samt ekki að fara út í það, því ég vil forðast ýfingar á meðan þetta mál er á ferðinni. Starfsreglurnar eiga að vera þannig, að þær tryggi neytendunum, að þeir geti skipt þar, sem þeim þykir bezt.

Ég vil svo aðeins svara hæstv. félmrh. örfáum orðum. Hann tók einnig líklega í það að sinna málinu og gefa því meðferð í þinginu. Hann andmælti þó einu meginatriði frv., skipun nefndarinnar. Hann sagðist álíta, að þarna kæmu fleiri aðilar til greina en kaupmenn og kaupfélög. Ég tók það greinilega fram í framsöguræðu minni, að ein breyt., sem gerð er, er sú, að stærsta aðilanum, neytendunum, er sleppt. En ég verð að segja, að mér er ekki vel ljóst, hvernig á að koma honum að. Eina ráðið til þess að tryggja rétt neytendanna er að hafa verzlunina alveg frjálsa, ekki einungis þannig, að þeir geti verzlað við hvern, sem þeir vilja, heldur að þeir geti beinlínis pantað vörur frá útlöndum. Hömlur og höft er aldrei hægt að framkvæma öðruvísi en að hafa verzlunarinnflutninginn í höndum innflutningsnefndar, en þar þekkjast ekki aðrir aðilar en kaupmenn og kaupfélög og svo ríkið. Neytendurnir fá ekki að flytja neitt inn. Af þessari einföldu ástæðu er ekki hægt að koma neytendunum að í þessari nefnd.

Hæstv. ráðh. sagði, að neytendurnir ættu einn fulltrúa í nefndinni. Hvað hefir hann gert ? Hefir hann tryggt neytendunum rétt til að panta vörur? Ég veit ekki betur en allri verzluninni hafi verið beint til kaupmanna og kaupfél.

Það verður að reyna að tryggja rétt neytendanna með öðru móti, og þá með verðlagsnefnd. Þó að ég hafi að vísu ekki neina tröllatrú á verðlagsefnd, þá held ég, að réttur neytendanna sé raunverulega bezt tryggður með slíkri nefnd, en að því leyti sem neytendurnir geta haft ítök í slíkri nefnd, þá eru þau í gegnum þann mann, sem ríkisstj. skipar. Þegar þeir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hafa skipað sína menn, þá er eðlilegt að líta svo á, að sá aðili, sem ríkisstj. skipar, sé aðili almennings í landinu, og hann vinnur þar bezt fyrir almenning í landinu með því að tryggja sem réttlátasta úthlutun, svo að þær vörur, sem flytjast til landsins, fáist hjá sem flestum aðilum, sem neytendurnir geta svo valið um að verzla hjá. Það er ekkert annað ráð til þess að tryggja rétt neytendanna á meðan höft eru.

Mér þótti þess vegna leitt að heyra, að hæstv. ráðh. kvað svo sterkt á um það, að Alþfl. væri andvígur þessari skipan nefndarinnar, nema Alþfl. geti þá stungið upp á svo góðri skipan nefndarinnar, að við gætum fallizt á hana. Ég get ekki skilið, að frá sjónarmiði neytendanna sé nokkuð borið fyrir borð með þessu frv.