07.03.1940
Efri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð, áður en málið fer til n.

Hv. 1. þm. Reykv. fannst það meir orðaleikur hjá mér en rannveruleiki, að þessir 3 menn, sem af hálfu ríkisstj. eru í gjaldeyris- og innflutningsefnd, bæru ábyrgð fyrir Alþ. á gerðum sínum. Við skulum bara líta á blákaldan raunveruleikann. Sá ráðh., sem fer með þessi mál, ber ábyrgð á þeirri aðallínu, sem þessir menn vinna eftir. Alþ. getur gagnrýnt hana og komið fram persónulegri ábyrgð á hendur þeim ráðh., sem fer með þessi mál.

Hv. þm. benti á, að það væri hægt að fullnægja þessu með því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í frv., það væri hægt að taka þessi mál af þessari stofnun, ef hún reyndist ekki vel. Það er fyrst um þetta að segja, að það myndi ekki vera hægt að gera það fyrr en löngu eftir á, svo það gæti liðið langur tími, þar sem ekki væri samræmi í gjaldeyris- og verzlunarpólitíkinni og svo þeirri pólitík, sem ríkisstj. rekur, sem þó væri vissa fyrir, að hefði vilja þingsins á bak við sig. Það gæti þannig skapazt ósamræmi milli ríkisstj. og þessarar stofnunar. Það er ennfremur vitað, að menn eru seinþreyttir til að gera umfangsmiklar breyt., svo það gæti átt sér stað, að þessi stofnun kæmi fram með línu, sem ríkisstj. og þingið væri alls ekki ánægt með, án þess að hafizt væri handa um breyt.

Ég held þess vegna, að ekki sé hægt að færa eðlileg rök fyrir því, að jafnveigamikil mál skuli færð úr höndum stj. eða þess ráðh., sem fer með þau, og yfir í hendur stofnunar, sem ekki ber ábyrgð fyrir Alþ. Það þarf að færa frekari rök fyrir því, að þetta sé eðlilegt og nauðsynlegt.

Þá kem ég að þeim rökum, sem hv. 1. þm. Reykv. færði fyrir þessum breyt., en þau eru, að með þessu myndu aukast líkurnar fyrir því, að þessir aðilar geti nálgazt meir en áður og komið sér saman um skiptingu innflutningsins.

Ég hefi bent á, að sú leið er fyrir hendi, að þessir aðilar eigi hlut að skiptingu innflutningsins með oddamanni frá gjaldeyris- og innflutningsnefnd. Ég hefi trú á því, að ef þessir aðilar ná saman á þennan hátt, þá væri hægt að eyða miklum misskilningi, sem ætíð á sér stað, hvort sem það nú leiddi til þess, að menn yrðu sömu skoðunar á þessum hlutum eða ekki. Ég hefi mikla trú á, að það gæti orðið til bóta og eytt margskonar misskilningi. Ég vil benda á, að 1936 komu þessir aðilar, sem hafa haft ólík sjónarmið, saman til hess að ræða um þessi mál. Þeir urðu þá sammála um vissa lausn í þessum málum í eitt skipti en því miður hefir það orðið þannig, að þeir hafa ekki komið sér niður á lausn nema í þetta eina skipti. Mér finnst þó ekki útilokað, að þeir gætu það.

Ég legg mikið upp úr því, sem hv. 1. þm. Reykv. tók undir, að það eru svo mörg mál, sem gjaldeyris- og innflutningsnefnd hefir, sem alls ekki snerta þá stofnun frekar en aðrar stofnanir. Ég skal taka t. d. álit, sem snertir iðnað og afstöðu hans til innflutningsnefndar. Það snertir ekki þessa stofnun, nema þá einhliða, að því leyti, sem iðnaðurinn er keppinautur um innflutninginn. Að öðru leyti er þessi stofnun ekkert betur fallin til þess að leysa úr slíkum málum en einhverjir aðrir fulltrúar ríkisvaldsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram um þetta atriði, áður en málið fer til n. Ég vil þó endurtaka það, að ég hygg, að niðurstaðan af þessari breyt. myndi verða sú, að engum fyndist hann raunverulega bera ábyrgð á þessum málum. Enginn ráðh. gæti þá litið þannig á, að hann bæri sérstaklega ábyrgð á þessum málum. Það myndi því verða þannig, að hver vísaði af sér á annan, svo enginn ábyrgur aðili fyndist í landinu. Ég hefi áhyggjur út af því, til hvers slíkt myndi leiða.

Það er mikið aðhald, að hafa einhvern aðila, sem hægt er að snúa sér að og gagnrýna, sem þá myndi reyna að endurskoða málið, ef honum fyndist gagnrýnin á rökum reist. Það er alveg útilokað að halda því fram, að slík gagnrýni sé ekki nauðsynleg, enda er hægt að beita henni, ef það er einhver aðili, sem raunverulega hefir málið með höndum. Hitt getur bara orðið til þess, að hver og einn vísar frá sér á annan.

Hv. 1. þm. Reykv. vék að öðru atriði, sem ég talaði um, og sagði, að það væru viss dæmi til, að skipun embættismanna færi fram á ráðherrafundi. Það getur vel verið að svo sé, en þá er alltaf gert ráð fyrir, ef ekki næst samkomulag, að sá ráðh., sem málið heyrir undir, skeri úr um skipunina. Annars er skorið úr með atkvgr. Það hefir engin embættisveiting átt sér stað síðan ég tók sæti í ríkisstj., þar sem allir ráðh. hafa borið ábyrgð á skipuninni.

Hv. þm. sagði, að það ætti sér stað, að hæstiréttur skipaði oddamann. Þá eru vitanlega greidd atkv. um það af dómurunum, hver skuli hljóta starfið, ef ekki næst samkomulag. Ég geri ráð fyrir, að þannig yrði þá að fara með þetta mál.

Hv. þm. sagði, að það þyrfti að vera samkomulag innan ríkisstj. Það gæti kannske orðið þannig, að einn ráðh., sem ekkert hefir með þessi mál að gera, gæti komið í veg fyrir ákvörðun, sem hinir 4 ráðh. væru ánægðir með. Ef svona á að fara að, þá erum við hér komnir inn í blindgötu, sem ekki er hægt að komast áfram í.

Hv. þm. sagði, að það væri ómögulegt, að ríkisstj. gæti ekki komið sér saman um þetta. En fari nú svo, að ríkisstj. geti ekki komið sér saman, þá ætti þetta líka að vera eins og venja er til, að sá ráðh., sem málið heyrir undir, hafi úrskurðarvald. Í því trausti gæti náðst samkomulag í ríkisstj., án þess að það væri bundið í l., að það skyldi vera. Það er auðvitað sjálfsagt að reyna að ná samkomulagi, en ef það næst ekki, þá verður sá ráðh., sem málið heyrir undir, að skera úr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessi tvö atriði.

Síðasta atriðið, sem hv. þm. fór lauslega út í, kæri ég mig ekki um að fara rækilega út i. Það var um það, hverskonar ákvæði rúmuðust undir þriðja ákvæði frv., um starfsreglurnar. Það getur komið til nánari athugunar í n. Ég vil þó taka það fram, að það hefir ekki annað vakað fyrir mér með framkvæmdum í þessum málum en það, að menn gætu sem mest verzlað þar, sem þeir vildu. Það vakir fyrir mér, að svo miklu leyti, sem það er mögulegt. Það má segja, að það sé vandasamt að koma slíku við til nokkurrar hlítar, því það þurfa margar upplýsingar að liggja fyrir til þess að það sé hægt.

Hinsvegar má mikið deila um það, hvað sé réttlátt. Það má halda því fram, að það sé réttlátt að færa viðskiptin til eftir því, hvert þau leita, og það má nota ýmsar aðferðir til þess að komast eftir því, hvert þau leita.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í þetta nánar. Málið á eftir 2 umr. í þessari d. og n. á eftir að fjalla um það, svo það má athuga nánar í n. þau ákvæði, sem eru í 3. gr. frv.