22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Eins og nál. á þskj. 536 ber með sér, hefi ég skrifað undir nál. fjhn. með fyrirvara. Og gildir sá fyrirvari raunverulega um afgreiðslu málsins, en þó sérstaklega um skipun þeirrar undirnefndar, sem hefir orðið samkomulag um að skipa, og er það í fullkomnu samræmi við það, sem áður hefir verið haldið fram í þessari hv. d. af hálfu Alþfl. um þetta mál. Alþfl. telur það ekki rétt, að þessi undirn. eða aðaln., sem hefði verið samkvæmt frv. eins og það var fyrst, sé þannig skipuð, að enginn fulltrúi frá neytendum sé þar til staðar, þegar um er að ræða skiptingu til hinna ýmsu aðila. En flokkurinn telur jafnframt, að með tilliti til þess, að hér eru þrír flokkar, sem standa að ríkisstj., sem fer með völdin í landinu, þá sé rétt, að maður frá Alþfl. eigi þar hlut að máli.

Ég þarf ekki að skýra þessa brtt., sem ég flyt á þskj. 546, hún skýrir sig sjálf.

En ég vil gjarnan beina fyrirspurn til hv. frsm. n. út af því, hvernig beri að skilja þau vöruheiti, sem getið er um, að þessi undirn. eigi að skipta. Hvort t. d. orðið skófatnaður eigi að skilja svo hér, að enginn munur sé gerður á tilbúnum skófatnaði eða vörum til skófatnaðargerðar. Jafnframt vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. fjhn., hvort orðið byggingarefni beri að skilja svo, að þar sé eingöngu átt við efni, sem beinlínis er notað til húsabygginga, en ekki það, sem notað er á verkstæðum til verkstæðisvinnu, eða efni, sem notað er til skipasmíða og annars slíks.

Það er óþarfi að fara nokkuð að ræða þetta mál sérstaklega. Ég get ekki séð, hvað það er, sem hefir unnizt á við þessa breyt., sem gerð er á þessum málum, nema þá ef vera skyldi að koma nokkrum fleiri mönnum í atvinnu við þessar framkvæmdir, og er það kannske í sjálfu sér virðingarvert. Mér getur ekki annað skilizt en að sú n., sem nú starfar og á að starfa áfram, hefði alveg eins verið fær um það að skipta innflutningi á milli hinna einstöku innflytjenda eins og þessi undirn., sem nú á hér að skipa, en samkvæmt þessari brtt., sem hér liggur fyrir, og þeirri þáltill., sem borin mun verða fram í Sþ. og sennilega verður samþ. þar, þá telst mér til, að að þessum nefndarstörfum einum muni koma til með að vinna um 14 manns, og er það aðaln. með 5 menn, 3 menn í þessari undirn. og þar að auki 3 menn í milliþn., og mér er tjáð, að 3 menn muni vinna við skiptingu gjaldeyris milli bankanna. Og virðist þetta þá orðið allmikið skrifstofubákn, sem utan um þetta er komið, því að vanalega vinnur auk þessara manna fjöldi manns á skrifstofunni hjá gjaldeyris- og innflutningsn., og má álykta, að við störf þessarar nýju n. muni e. t. v. ekki af veita að bæta nokkru starfsfólki við.

Ég mun svo, ef mín brtt. á þskj. 546 verður felld, greiða atkv. gegn þessu frv.