26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

4. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur m. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn. hefir athugað þetta frv. og mælir með, að það verði samþ. óbreytt. Það eru ekki stórvægilegar breyt., sem þetta frv. gerir á gildandi l. um laun hreppstjóra og aukatekjur. Það gengur aðeins út á það, að sömu þóknun beri að greiða fyrir matsgerðir í þágu þess opinbera eins og þegar einstakir menn biðja um matsgerðir. Í l. um laun hreppstjóra og aukatekjur frá 1938 var svo ákveðið, að greiða skyldi 7 kr. fyrir hvern dag, sem matsgerð færi fram, en þetta hefir ekki þótt gefast vel. Dagsverk við matsgerðir eru auðvitað ákaflega mismunandi; stundum þarf vitanlega að fara fram mat á fleiri stöðum en einum sama daginn, en stundum er aðeins um lítilfjörlegt mat á einum stað að ræða. Þess vegna hefir því ráðun., sem þessi mál heyra undir, þótt hentugt, að þetta yrði fært aftur í það horf, sem var áður en núgildandi 1. um laun hreppstjóra og aukatekjur voru sett.

Ennfremur er í frv. gerð lítilsháttar breyt. á um ferðakostnað til matsgerða, sem ekki þarf nánari skýringa við. Sem sagt, þetta er vitanlega ekki neitt stórmál og hefir ekki mikla þýðingu, en fjhn. hefir ekki neitt við þetta frv. að athuga og mælir með því, að þessar litlu breyt. verði samþ.