22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég hafði nú hugsað mér, þegar þetta mál var hér til 1. umr., og um það urðu langar umr., að taka til máls við 2. umr. þess. En í raun og veru fór þetta allt öðruvísi en ætlað var. Það hefir engin 2. umr. verið höfð um málið í þeim skilningi, sem gert var ráð fyrir upphaflega, því að þetta frv. er orðið að engu. Þetta hefir verið eitt af stórmálum þingsins og sérstaklega frá sjónarmiði þeirra stærstu fl., sem styðja ríkisstj. Um þetta hefir verið rætt og ritað meir en nokkuð annað einstakt mál, sem fyrir þinginu hefir verið. Nú, svo kemur þetta nál. á þskj. 536, og það er öll lausnin, sem fengizt hefir, eftir þær hörðu fæðingarhríðir, sem staðið hafa næstum alian þingtímann. Það má um þetta segja: „Fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús.“

Það hefði vissulega verið mikil þörf á því, að gjaldeyrisl. hefðu verið tekin til ýtarlegrar endurskoðunar. Að vísu álít ég, að það hefði þurft að taka þau til athugunar á allt annan hátt heldur en gerð var tilraun til í frv. á þskj. 61. Og ég álít, að það hefði verið ennþá meiri þörf á því nú heldur en þá að taka þetta mál til endurskoðunar. Í fyrsta lagi er nú vitaskuld miklu meiri þörf á því að reyna að finna leið til þess að losna eins og auðið er við haftafarganið og alla spillinguna, sem því er samfara. En hitt er ekki síður nauðsynlegt, eins og horfurnar eru nú, að gerð sé tilraun til þess, að fengin sé einhver skipun á gjaldeyris- og innflutningsmálin og að sem bezt verði tryggt, að við getum aflað okkur nauðsynja þeirra, sem við óhjákvæmilega þurfum á að halda, og setja reglur um það, hvaða vörur beinlínis skuli banna innflutning á og hvaða vörur skuli takmarka meir innflutning á en verið hefir, og gera ráðstafanir til þess að við getum tryggt innflutning á þeim vörum, sem við þurfum nauðsynlega á að halda. En ekkert af þessum málum er leyst með því, sem stendur á þskj. 536, heldur er ekkert gert þar annað en að stinga upp á því, að sett verði ný n. við hliðina á gjaldeyris- og innflutningsn. Ég ætla ekki að gera mig sekan um að kalla hana undirnefnd. (JJ: Hún er sjálfstætt konungsríki). Já, hún er víst sjálfstætt konungsríki. En þessi n. er gersamlega gagnslaus og hefir ekki hina minnstu þýðingu. Verkefni þessarar n. er, að fulltrúi SÍS og annar frá Verzlunarráði Íslands eiga að rífast um það, hvernig skuli skipta innflutningi á milli SÍS og heildsalanna. En þetta hefir verið gert. Breyt. er aðeins sú, að í stað þess að þeir menn hafa ekki verið launaðir, sem um þetta hafa rifizt, á nú að fara að launa þá fyrir þetta.

Það er alveg rétt, sem hv. 10. landsk. sagði, að neytendur hafa ekki neinn fulltrúa í þessari n. En brtt. hv. 10. landsk. er um það, að einn af þessum nm. skuli vera tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands. Breytir þetta þó engu hvað neytendur snertir, vegna þess að Alþýðusamband Íslands er enginn fulltrúi fyrir neytendur. Það er ekki annað en pólitískur flokkur. Ef það hefði átt að setja í þessa n. fulltrúa frá neytendum, þá hefði verið réttara, að fulltrúinn hefði verið frá samvinnufélögum neytenda í kaupstöðum, t. d. Kron eða öðrum slíkum samtökum. (JJós: Kron er í SÍS). En stj. SÍS getur ekki talizt fulltrúi fyrir neytendur. En sem sagt, ég álít, að það skipti ekki neinu máli, því að hvort sem brtt. hv. 10. landsk. verður samþ. eða ekki, er þessi n. einskis virði, nema til þess að skapa þarna atvinnu handa þremur mönnum, og er það undarleg lausn í þessu stórmáli, að engin lausn skuli finnast önnur en að skapa þarna þrjá bitlinga, á sama tíma sem enginn mælir á móti því, að stærsta verkefnið, sem fyrir þinginu liggur, er, hvernig mest verði sparað af opinberum útgjöldum og þau óþörfu embætti, sem fyrir eru í landinu, verði afnumin.

En lausnin á þessu stórmáli er nú fólgin í því einu, að bæta nýjum og gagnslausum embættum við öll embættin í landinu, sem fyrir eru.