26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég gat þess við 1. umr., að fjhn. myndi athuga þetta mál milli umr., enda þótt það sé flutt af henni skv. ósk ríkisstjórnarinnar og því hafi ekki verið sérstaklega til hennar vísað. Þetta hefir n. gert og ber nú fram 2 brtt. á þskj. 183. Mun ég í fáum orðum gera grein fyrir þessum brtt., en þær eru augljósar, þótt þær ef til vill kunni að valda einhverjum ágreiningi.

Fyrri brtt., við 2. gr., er í raun og veru tvær brtt. Í fyrsta lagi að breyta flokkaskipuninni, sem í frv. er miðuð við laun allt að 270 kr. á mánuði til launa yfir 360 kr. á mánuði, og er einn flokkur þar í milli. Leggur n. til, að miðað verði við 300 kr. mánaðarlaun, 300–400 kr. og yfir 400 kr. á mánuði, þó þannig, að verðlagsuppbót greiðist aðeins á 650 kr. mánaðarlaun, en ekki af því, sem fram yfir er. Þetta er ekki efnisbreyting raunverulega, því að ákvæðin í stjfrv. voru byggð á áætlunum, sem miðaðar voru við, að starfstími embættismanna væri 6 tímar á dag. N. leit svo á, að þessi áætlun væri ekki rétt, starfstími embættismanna er yfirleitt töluvert lengri. Það er ekki rétt að miða við það, að skrifstofur séu yfirleitt opnar 6 tíma á dag, oftast verða menn að koma til vinnu klst. áður en skrifstofan er opnuð, og mjög margir verða einnig að vinna eftir lokunartíma. Að því er snertir vinnutíma kennara verður að taka tillit til þess, að þeir þurfa að fara yfir skriflegar úrlausnir og að verja einhverjum tíma að auki til undirbúnings kennslunni. Lætur því líklega nær, að starfstími embættismanna sé 8 tímar, en ekki 6 tímar daglega. Nú miðaði n. till. sínar ekki við þetta beinlínis. Hún vill láta miða við skýra upphæð og láta standa á 100 kr., og svara þær upphæðir til 7–8 st. vinnudags, en víðast hvar eru greidd mánaðarlaun á opinberum skrifstofum. Væri leitt til þess að vita, þar sem við sömu stofnun vinna menn með föstum launum og aðrir með tímakaupi, að þeir, sem hefðu tímakaup, færu upp fyrir hina. Hefir n. reynt að hafa þessa áætlun sem réttasta, og vænti ég, að menn geti verið sammála um þessa till.

2. liður fyrri brtt. er aftur á móti meira ágreiningsatriði. Ég fyrir mitt leyti er á móti því að bæta aldrei upp meira af launum starfsmanna ríkisins en sem svarar tæplega 8 þús. kr. tekjum, eða að bæta ekki upp það, sem er yfir 650 kr. á mánuði. Hér er verið að jafna tekjur manna eftir að búið er að gera það áður með flokkaskiptingunni. Ég gekk inn á að gera þessar tvær till. að einskonar „síamesiskum“ tvíburum, þannig að ekki er unnt að greiða atkv. nema með báðum till. eða á móti báðum. Ég tel þetta þó í raun og veru principbrot.

Þá kemur 3. brtt., við 8. gr., að verðlagsuppbótin greiðist mánaðarlega. Þetta er áreiðanlega heppilegra, ef það er ekki því þyngra í framkvæmd, en því getum við í n. ekki skorið úr. Það er ekki vafi á því, að fyrir þá, sem eru lægst launaðir, er það ákaflega bagalegt, að geta ekki fengið öll laun sín greidd mánaðarlega. Vil ég því mæla með því, að þessi brtt. verði samþ. Hefi ég þá gert grein fyrir þessum brtt. n. og skal ekki lengja umr. frekar.