26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég tel þessar till. n. til bóta, en samt ekki svo, að við sé unandi. Vil ég því leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. við brtt. n., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: [sjá þskj. 213].

Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja þetta nánar en ég gerði við 1. umr. Ég lít svo á, að á meðan þeir, sem lægst eru launaðir og ekki hafa meira en 300 kr. á mánuði, fá ekki meiri kjarabætur en 9% hækkun. ... Mér finnst það ekki ná nokkurri átt, að laun, sem ekki nema meiru en 2 þús. kr. á ári eða svo, verði ekki hækkuð nema um 10%, á sama tíma sem verðlag hækkar um 30%, og á sama tíma og gert er ráð fyrir, að þeir menn, sama hafa allt að 650 kr. laun á mánuði, fái allmikla launauppbót. Þetta álít ég, að sé augljóst mál, og þurfi því ekki að fara um það fleiri orðum.

Það er þó eitt atriði, sem ég vil enn gagnrýna, og það er það, að ekki sé rétt að miða við krónutal, heldur við kaupmátt krónunnar. Ég geri ekki ráð fyrir því, að verulegar verðlagsbreytingar verði þangað til næsta þing kemur saman, svo að nokkur ástæða sé til þess að hækka laun þeirra manna, sem hafa 650 kr. á mánuði. En ef svo færi, myndi öll þessi löggjöf raskast svo, að stórkostleg nauðsyn myndi að lagfæra hana alla, annaðhvort með því að kalla saman þing eða með því að gefa út bráðabirgðalög.