29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég þarf ekki margt um þetta mál að segja. Það er í rauninni borið fram samkvæmt ákvörðun síðasta Alþ., þ. e. a. s. í l. frá því þingi var gert ráð fyrir, að embættismönnum og starfsmönnum ríkisins yrði greidd verðlagsuppbót í samræmi við reglugerð. sem ríkisstj. setti. Það varð síðan að ráði í staðinn fyrir að gefa út reglugerð um þetta efni, að lagt var fyrir þingið frv. það, sem hér liggur fyrir. Frv. var lagt fram í Ed., og hefir sú d. gert nokkrar breyt. á því, sem aðallega felast í 2. gr. Ríkisstjórnin fellst alveg á þær breyt., sem Ed. hefir gert á frv., og ég get mælt með því, að frv. verði afgr. í því formi, sem það nú er.