16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti! Fjhn. hefir athugað þetta frv. allrækilega. Samkomulag varð síðast um það í n.afgr. málið til d. með sameiginlegu nál., en láta þær brtt. koma fram sér í lagi, sem menn óskuðu eftir að gera við frv. N. öll, að undanskildum hv. þm. V.-Ísf., hefir orðið sammála um að bera fram sameiginlega brtt. á þskj. 411 og sömuleiðis nú síðar á þskj. 465. Þessi meiri hl. n. taldi rétt, að undir núverandi kringumstæðum ætti þessi verðlagsuppbót til embættismanna ríkisins ekki að koma fram sem almenn launahækkun, hvort sem þau eru há eða lág, heldur ætti hún fyrst og fremst að miðast við það að hjálpa þeim til að afla sér lífsnauðsynja, sem verst eru settir með að fá laun. Og við þetta eru brtt. n. miðaðar á þeim þskj., sem ég nefndi. Það má segja, að í brtt. n. séu þrjú stig, sem n. leggur til, að miðað sé við.

Í fyrsta lagi eru sett tvennskonar hámörk á uppbótina, þannig að þeir, sem hafa aðeins fyrir sjálfum sér að sjá, fái ekki verðlagsuppbót, ef laun þeirra fara yfir 360 kr. á mánuði. Hinsvegar er hámarkið hjá þeim, sem eru fjölskyldumenn, 650 kr. á mánuði, og í þriðja lagi sé öllum, sem hafa börn á framfæri, ætlaðar 10 kr. með hverju barni á mánuði. Það má segja, að þetta séu aðalatriðin í till. meiri hl. fjhn. og sem fyrst og fremst á að miðast við hina auknu dýrtíð, sem orðin er. Hinsvegar er ekki ástæða til, að verðlagsuppbótin komi fram sem bein launahækkun. Menn verða að líta á það, að ástandið er þannig í landinu, að það er fjöldi fólks, sem ekkert hefir til að framfleyta sér og sínum. Og áður en ríkið fer að hækka laun, verður það fyrst að líta til þeirra, sem ekkert hafa. Í till. meiri hl. er hér farið inn á svipaða braut og gert var með dýrtíðaruppbótinni 1915, að miða uppbótina við það, hvað menn hefðu mikið á framfæri sínu.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Brtt. eru ljósar og ég vænti þess, að hv. þm. geti á þær fallizt.