16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég skal fyrst minnast á brtt. á þskj. 465, sem er frá allri n., en sú till. er um það, að verðlagsuppbótin skuli einnig reiknuð af dýrtíðaruppbótinni. Í sambandi við þetta vil ég vekja athygli á því, að í sjálfri brtt. á þskj. 411 er talað um, að verðlagsuppbótin skuli reiknuð af stofnlaunum. Þetta hefi ég skilið svo, að hér væri átt við stofnlaun í mótsetningu við dýrtíðaruppbót, og að með stofnlaunum sé átt við föst laun. Þetta vil ég, að komi skýrt fram í umr., svo að ekki verði ágreiningur um framkvæmd þessa atriðis. Ég hygg, að engum þeirra hv. þm., sem fluttu viðbótartill., hafi dottið í hug, að aldursuppbótin ætti að falla undan við útreikning verðlagsuppbótarinnar. En þetta er töluvert stórt atriði fyrir margar láglaunastéttir, eins og til dæmis símamenn, póstmenn, presta og kennara. Aldursuppbótin getur numið allt að 2/5 af launum þessara stétta. Þessu frv. er ekki ætlað að breyta launaskalanum, sem í gildi er, heldur veita nokkra upphót á laun manna í hlutfalli við aukna dýrtið, en ríkið launar fáa menn svo vel, að orð sé á gerandi, að minnsta kosti um þá, sem búa við það verðlag, sem gildir hér í Reykjavík nú. Ég hefi ekki heldur kært mig um að fylgja því, að uppbót til einstakra manna væri takmörkuð, nema tekið væri tillit til þeirrar framfærslu, sem þeir í raun og veru hafa, því að skylduómagar í þessu sambandi segja ekki alltaf rétt til um það, hvaða framfærslu maður hefir. Og mér virðist, að barnauppbótin, sem gert er ráð fyrir í till. n., komi ekki réttlátlega niður. Þessi uppbót kæmi varla á börn eldri en 16 ára, en með því að svo myndi verða, þá kemur hún einmitt á þau börn, sem eru ódýrust í framfærslu, því að hér í kaupstöðunum er það a. m. k. svo, að þá fyrst fara börnin að verða foreldrunum dýr, þegar þau eru komin yfir 16 ára aldur. Ef farið væri inn á slíka uppbót, hefði ég viljað fara miklu nákvæmar inn á þessi atriði og veita uppbótina eftir raunverulegri þörf. Þetta er höfuðatriðið af því, sem ég vildi sagt hafa. Ég hefði getað fallizt á frv. eins og það kom frá Ed., því að mér kemur varla í hug, að þessi l. standi óbreytt meir en svona eitt ár eða svo, því að ef sama ástand helzt, hlýtur ríkisstj. að leggja nýjar till. fyrir næsta Alþ., og þá að þessu máli gaumgæfilega athuguðu. Þessar takmarkanir. sem hér er lagt til, að settar verði, hafa ekki verið settar í samskonar l., sem áður er búið að samþ. Með því er mönnum gert mishátt undir höfði. Takmarkanirnar eiga að koma alstaðar niður, ef á að setja þær. Þar á að vera samræmi í, en ekki ósamræmi, eins og skapast með þessum brtt. n.