16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

a*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég þarf fáu einu að svara. Eins og vænta mátti, hafa komið fram mismunandi sjónarmið. Það er eins og nokkrir hv. þm. hafi ekki gert sér ljóst, hvernig ástandið er, þegar þeim finnst, að á launamönnum eigi ekki að koma niður nein dýrtíð og að atvinnulífið geti staðið undir því að bæta þeim hana upp. Þeir hv. þm. eru utan við veruleikann. Það er sjáanlegt, að allir einstaklingar þjóðfélagsins verða að taka á sig meira en nú af erfiðleikunum. Þess vegna getur fjhn. ekki gengið lengra en það að miða uppbæturnar við, að menn geti lifað. Ég hygg, að starfsmenn hins opinbera verði á næstunni að láta sér nægja, ef þeir eru það launaðir, að þeir komist af. Hæstv. fjmrh. vildi telja það sér til afsökunar, að síðasta Alþingi hefði í raun og veru gefið í skyn, að uppbætur ætti að veita á þennan hátt og ekki annan. Ég efast um, að það hafi verið tilætlun Alþingis. Það var vitað, að ekki var hægt að semja lög um dýrtíðaruppbótina fyrr en sæist, hverju fram yndi um þjóðarhag. Því var það lagt í hendur ríkisstj. að grípa til þeirra ráðstafana, er nauðsynlegt þætti, áður en þing kæmi saman. Það var eðlilegt, að ríkisstjórninni væri trúað fyrir þessu, eins og hún er mynduð, og engin ákvæði sett um það, hvernig hún færi að.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri þá eins gott að setja slík ákvæði um kaupgjald verkamanna og dýrtíðaruppbót til þeirra, eins og ætlazt væri til með þessum brtt. En þetta er hinn mesti misskilningur, vegna þess að ríkið hefir vitanlega enga tilhneigingu til þess að bægja fjölskyldumönnum frá störfum, því að það yrði aðeins til þess, að þessir menn þyrftu opinbert framfæri, og er því engin hætta á, að ríkið fari að beita þeim tökum í sambandi við þetta mál, þó að brtt. fjhn. yrðu samþ. Hinsvegar geri ég ráð fyrir að einstaklingsfyrirtæki myndu frekar reyna að hafa einhleypa menn í vinnu, ef þessi ákvæði yrðu samþ. En það finnur hver maður, sem hugsar um þetta sjónarmið, sem hér er fyrir hendi, að með þessum ákvæðum á að reyna að hjálpa til um lífsafkomu manna. Hæstv. ráðh. talaði um það, að einhleypur maður, sem hefir 360 kr. á mánuði, væri betur settur en fjölskyldumaður, sem hefir 400 kr. á mánuði; vitanlega getur það vel komið til mála, að færa lágmarkskaup einstaklinga niður. Ég vil benda á það, að í frv. eins og það kemur frá hendi hæstv. fjmrh. er enn meiri munur milli þessara manna, vegna þess að einhleypur maður, sem hefir 360 kr. á mánuði, fengi um það bil sömu dýrtíðaruppbót og fjölskyldumaður, sem hefir 400 kr. á mánuði. Það, sem meiri hl. fjhn. getur ekki fellt sig við, er, að eftir því, sem frv. liggur fyrir, er sjáanlegt, að því hærri laun sem menn hafa, því meiri dýrtíðaruppbót fá þeir; þetta er óréttlátt. Fyrst og fremst á að miða við það að hjálpa þeim, sem hafa lægstu launin, með því að setja í frv. ákvæði um það að greiða öllum fjölskyldumönnum verðlagsuppbót með hverju barni, sem þeir hafa á framfæri sínu.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að með þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, væri verið að raska hlutfallinu milli launa frá fyrri launal. Hæstv. ráðh. gætir ekki að því, að með hans frv. er líka búið að raska því hlutfalli, vegna þess að með því er ætlazt til, að mismunurinn á uppbótinni fari lækkandi að prósentutölu, þó að mismunurinn sé ekki svo mikill, að hærri laun fá alltaf heldur hærri uppbót, þannig að hlutfallið milli launa hefir líka raskazt að allverulegu leyti eftir hans frv. Þá talaði hæstv. ráðh. um, að það yrði að sýna mjög mikið réttlæti í þessu máli. Ég er alveg sannfærður um það, eins og ástandið er nú, að það er ekkert réttlæti í því að borga þeim, sem hafa hærri launin, uppbót, hvað há laun sem þeir kunna að hafa. Mér finnst ástandið svo alvarlegt, að ég ímynda mér, að menn kærðu sig ekkert um það að fá uppbót á laun sin, ef þau eru mjög gífurlega há. Ég er sannfærður um, að þeir lægst launuðu eiga mjög erfitt með að komast af, ef þeir, sem t. d. hafa 200 kr. á mánuði, eiga að fá helmingi lægri uppbót en þeir, sem hafa t. d. 650 kr. á mánuði, og slíkt óréttlæti myndi skapa mikla beiskju meðal þeirra, sem lægst eru launaðir, og það ber að varast allar ráðstafanir, sem geta valdið slíku. Ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ef samþ. á frv. óbreytt eins og það kom frá hæstv. fjmrh. og eins og Ed. samþ. það, þá mun ég greiða atkv. á móti því. Hv. þm. V.-Ísf. talaði um nokkur fyrirkomulagsatriði og hvernig bæri að skilja þau atriði í brtt., þar sem minnzt er á stofnlaun, og er það réttur skilningur, sem hann lagði í það, og er það auðskilið mál. Um hitt, þar sem hann talaði um skylduómaga og uppbót á laun til þeirra, sem hafa börn á framfæri, þá getur það náttúrlega komið til álits, að börn, sem eru 16 ára, geti talizt á framfæri starfsmannsins, ef svo stendur á, að hann verður beinlínis að framfæra barnið vegna skólagöngu eða annars þess háttar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að hafa um þetta fleiri orð, en vildi óska þess, að till. eins og þær eru nú næðu fram að ganga. Ég er sannfærður um, að þær fela í sér það mesta réttlæti, sem hægt er að ná með skömmum tíma gagnvart starfsmönnum og embættismönnum ríkisins, eins og ástandið og horfurnar eru nú í okkar þjóðfélagi.