16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Sigurður Kristjánsson:

Það hefir komið fram hér á þinginu, og einnig utan þess, mikil ádeila á ríkisstj. fyrir það að hafa borið þetta mál fram, að bæta upp laun starfsmanna ríkisins. Það er undravert, að slíkt skuli koma fram, þar sem Alþ. hefir sjálft mælt svo fyrir, að þetta skuli gert, því að í 5. gr. l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi er sagt, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða með reglugerð verðlagsuppbót á laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, svo og ríkisstofnana. Einnig er gengizt undir hið sama í 2.–3. gr. sömu l., þar sem skipað er fyrir um kaupuppbætur til fólks í landinu almennt, þess sem tekur sín laun með kaupgreiðslu. Það myndi að sjálfsögðu hver stjórn líta svo á, að 5. gr., þar sem ætlazt er til, að ríkisstj. veiti þessum starfsmönnum, sem þar greinir, verðlagsuppbót, og er það í samræmi við þær reglur, sem Alþ. er með þessum l. búið að setja um kaupuppbætur til annars fólks í landinu. …. Ég tel þess vegna engan vafa á því, að sú leið, sem ríkisstj. hefir farið, sé alveg rétt, og meira að segja var það skylda ríkisstj. að undirbúa þetta mál. En hinsvegar má lengi deila um ýmis fyrirkomulagsatriði í sambandi við þetta mál, en mér virðist, að vel sé hægt að sætta sig við það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, eins og það var, þegar það kom frá Ed. Mér virðast brtt. fjhn. á þskj. 411 alls ekki vera til bóta, heldur sumpart til hins lakara, og sumpart mjög óljósar. Það er sérstaklega eitt atriði í þessum till. meiri hl. fjhn., sem ég vil benda á og tel, að sé mjög athugavert og að nokkru leyti byggt á ókunnugleika. T. d. undir tölul. 3 stendur, að „verðlagsuppbót samkv. 2. gr. reiknast af stofnlaunum hlutaðeigandi starfsmanns eða embættismanns.“ Það er mjög óljóst, hvað meint er með stofnlaunum. Í því sambandi vil ég benda á, að það er ólíku saman að jafna um stofnlaun í ýmsum starfsgreinum ríkisins. Sumar eldri stofnanir ríkisins hafa nú sömu stofnlaun við starfsmannahald eins og fyrir 20–30 árum, en hafa svo, eftir því sem tímarnir breyttust og dýrtíðin óx í landinu, bætt þessu starfsfólki upp launin með allskonar aukagreiðslum, sem orðnar eru alveg fastar. En hinar nýrri stofnanir hafa ákveðið stofnlaunin strax eins há og þáverandi ríkisstj. taldi, að myndi þurfa til þess að fullnægja framfærsluþörf starfsmanna. Í þessu sambandi vil ég benda á landssímann, sem hefir um 200 starfsmenn: þar hafa símastúlkur 75 kr. í byrjunarlaun á mán. Ég býst varla við, að þetta séu stofnlaun, heldur þau laun, sem komið hafa með aldursuppbót, en þau laun eru ákaflega lág, og ekki nema partur af þeim launum, sem stofnanirnar greiða á annan hátt. Ég skal bæta því við, að mér er kunnugt um, að sumar þessar stúlkur hafa fólk á sínu framfæri. Í nágrenni við mig býr gömul heilsulaus kona með dóttur sinni og öðru barni; stúlkan vinnur við símann og hefir fengið 75 kr. í byrjunarlaun, og verður hún að sjá fyrir heimilinu. Símritarar fá í byrjunarlaun aðeins 150 kr. á mánuði, og margir þeirra hafa fyrir heimili að sjá, og það er ekki enn komið í tízku að banna símriturum að giftast eða eiga börn. Það hlýtur þess vegna að vera undir þeirra ákvörðun komið, hvort þeir eignast fjölskyldu eða ekki, og vitanlega eru stofnanirnar löngu búnar að sjá, að menn geta ekki framfært heimili af þessum launum og hafa þar af leiðandi bætt launin upp, og hefir það mætt mikilli gagnrýni af ýmsum sparnaðarmönnum hér á þessari háu samkomu. Ef reikna ætti þessi byrjunarlaun sem stofnlaun, þá myndi koma fram mikið misrétti gagnvart starfsmönnum þessara stofnana, sem hafa föst laun ákveðin frá upphafi. Ég held þess vegna, að það verði að vera ríkisstj., sem tekur ákvörðun um þetta, hvað hún álítur, að séu raunveruleg laun starfsmanna ríkisstofnana. Ég ætla ekki að fara út í neina deilu um þetta, enda er það augljóst mál. En ég vil endurtaka það, að ég felli mig bezt við frv. eins og það kom frá Ed., þótt að því megi ýmislegt finna. Ég tel, að það sé ekki til neinna bóta að samþ. till. meiri hl. fjhn. og mun því greiða atkv. á móti þeim öllum.