16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Sigurður E. Hlíðar:

Ég skal ekki vera langorður, en finn ástæðu til að gera grein fyrir mínu atkv. Það bregður svo undarlega við, að hér í þessari hv. d. heyrast raddir um það, að hér sé mál á ferðinni, sem ekki sé byggt á fullkominni sanngirni. Ég hélt, að allir væru sammála um það, að þetta frv. væri byggt á fullri sanngirni. Það kom greinilega fram, þegar gengisskráningarl. voru sett fyrir ári síðan, að þau voru sett og þeim fylgt af kappi vegna þess ástands, sem þá var fyrir dyrum hjá framleiðslunni til sjávarins sérstaklega, og þá var það álit manna, að fyrst og fremst bæri að taka tillit til aðstöðu þeirra manna, sem stunduðu þennan aðalatvinnuveg þjóðarinnar. Á þetta voru allir sáttir, og var þá horfið að því ráði að fella gengi krónunnar; þannig urðu þessi l. sett. En jafnframt þessu var það talið sanngjarnt að bæta verkalýðnum að einhverju leyti upp þá verðfellingu krónunnar, sem fram kom. Embættismenn og fastir launamenn þjóðarinnar voru látnir sitja á hakanum, og var ekki álitið eins knýjandi að viðurkenna verðfellinguna gagnvart þeim, þar sem ekki var hægt að segja, að dýrtíðin væri skollin á, þó að menn gerðu ráð fyrir því, að fyrsta afleiðing gengisskráningarinnar yrði aukin dýrtíð. Nú er það tvennt komið til greina viðvíkjandi föstum embættis- og starfsmönnum ríkisins, í fyrsta lagi fall gjaldmiðilsins við gengisskráninguna, í öðru lagi aukin dýrtíð, sem ekki er eingöngu afleiðing gengisskráningarinnar, heldur einnig, og miklu fremur, afleiðing þeirra hluta, sem hafa gerzt í heiminum, — stríðsins. Með öðrum orðum: dýrtíðin er skollin á í tvöfaldri merkingu gagnvart þessum mönnum. Ég held, að enginn maður þori að mótmæla þessum tveim ástæðum, og þess vegna hélt ég, að þetta væri svo sterk undirstaða undir þær hógværu kröfur, sem hér eru gerðar, að enginn hv. þm. myndi á móti mæla. Þó heyrði ég áðan rödd í horni, sem sagði, að helzt ætti engin uppbót að koma á laun þeirra manna, sem væru í föstum stöðum hjá ríkinu eða ríkisstofnununum. Ég held samt, að enginn hv. þm. meini slíkt í raun og veru, því að með þessu frumvarpi er reynt að fara í sanngjarna átt, og get ég vel fellt mig við það. Það má að vísu um ýmislegt deila, sem í frv. er, en í höfuðdráttum held ég, að þrætt sé það meðalhóf, sem flestir myndu gera sig ánægða með. Þess vegna er ég ráðinn í því fyrir mína parta að greiða frv. eins og það var afgr. frá Ed. mitt atkv. Ég get ekki fellt mig við brtt., sem meiri hl. fjhn. Nd. hefir borið fram á þskj. 411; þó eru þar partar, sem gætu komið til greina og mér finnst, að séu í sanngirnisátt, en aftur aðrir, sem fara alveg fjarri því. Það er enginn vafi á því, að fjöldi af þessum opinberu starfsmönnum, sem þó hafa það fram yfir verkalýðinn, að hafa fastar stöður, eru svo lágt launaðir, að með gengisskráningarl. og dýrtíðinni er ekki hægt fyrir þá að framfleyta lífinu, nema að fá uppbót að einhverju leyti. Að vísu eru til menn, sem eru svo óhóflega hátt launaðir, að þeir þurfa ekki uppbót, en þeir eru tiltölulega fáir, og yfirleitt er það svo, að starfsmenn ríkisins hafa ekki sambærileg laun við starfsmenn annara stofnana. Það nær því ekki neinni átt, að starfsmenn ríkisins verði lengur látnir sitja á hakanum með að fá uppbót á laun sín.