16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég hefi borið fram brtt. eins og hv. þm. hafa heyrt, og vil nú til frekari skýringar gefa hv. þm. yfirlit yfir það, hvernig dýrtíðaruppbótin kemur út, ef farið yrði eftir till. þeim, sem hér liggja fyrir, eins og frv. er nú, og hinsvegar, ef farið yrði eftir mínum till. Eftir mínum till. er gengið út frá því, og einnig eftir till. fjhn., að af launum, sem eru 7800 kr., verði engin dýrtíðaruppbót reiknuð. Hinsvegar, ef farið yrði eftir frv., þá myndi a. m. k. verða reiknuð uppbót af 7800 kr., og að öðru leyti gengið út frá svipuðum reglum og nú gilda. Þess vegna er það, að fyrir láglaunamenn, sem hafa t. d. 215 kr. á mánuði, og ég hygg, að það séu algeng laun, t. d. meðal kennara, þá yrði uppbótin í 1. flokki nál. 500 kr. á ári, miðað við 15%. En eftir skýrslum hagstofunnar þarf 5 manna fjölskylda fyrir fatnað, mat og eldsneyti 3300 kr., en nú hefir kostnaður þessara þriggja lífsnauðsynja vaxið um 800 kr. Hinsvegar aftur á móti yrðu uppbæturnar fyrir þessa starfsmenn, sem hafa 3300 kr. á ári, ekki nema 500 kr., og nægir það ekki til þess, að þeir gætu veitt sér það, sem hagstofan álítur, að þurfi til þess að kaupa fyrir mat, föt og eldsneyti, og er þá ekkert eftir til þess að borga húsnæði og aðrar þarfir. Þessi hækkun á laununum samsvarar því engan veginn hækkun dýrtíðarinnar, og það er vitanlegt, að sú hækkun, sem láglaunamenn í 1. fl. myndu fá eftir frv. eins og það er nú, myndi verða helmingi minni að krónutali en sú hækkun, sem hálaunamenn myndu fá. Í þessu er greinilegt óréttlæti. Það hlýtur að eiga að stefna að því réttlæti, að láglaunamenn geti fengið fulla uppbót, þannig að þeir geti a. m. k. framfleytt sér eins og hingað til, þar sem viðurkennt er, að þeir hafa ekki haft laun, sem nægðu til að framfæra þá og fjölskyldu þeirra. Hinsvegar nær það ekki nokkurri átt að láta hálaunamenn fá helmingi hærri uppbót en láglaunamennina. Þetta virðist liggja ljóst fyrir frá sjónarmiði venjulegra þegna þjóðfélagsins, en ég skal ekki segja, hvað meiri hl. hv. alþm. kann að segja um svona nokkuð, það hefir viljað brenna við, að hálaunamenn ættu hér góða forsvara, en láglaunamenn aftur að sama skapi slæma. Hvort það stafar af því, að skipun þingsins er eins og hún er, eða af einhverju öðru, skal ég ekki segja um, en nú reynir á það, hvernig menn hugsa, í sambandi við þá atkvgr., sem hér liggur fyrir. Ég mun, ef mín till. verður felld, greiða atkv. með brtt. hv. meiri hl. fjhn., sem fara fram á, að á laun yfir 7800 verði engin dýrtíðaruppbót greidd, þótt ég sé hinsvegar ekki ánægður með till. meiri hl. fjhn. Ég mun aftur á móti greiða atkv. á móti 3. brtt., en af henni myndi margskonar óréttlæti hljótast, sem sé ef reikna ætti uppbótina af þessum gamaldags stofnlaunum í stað þeirra launa, sem raunverulega eru greidd.