16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það þýðir ekki að ræða þetta mál mikið. Áframhaldandi virðist vera sami tónninn í þeim hv. þm., sem ekkert vilja sjá í þessu efni, og fer það sérstaklega illa hjá þeim mönnum, sem eru hér að tala um sanngirni og breiða sig út yfir það, að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til dýrtíðarinnar, og það er einmitt það, sem við gerum með till. meiri hl. fjhn., að taka tillit til dýrtíðarinnar þar, sem þess er þörf. Við viljum gera greinarmun á því, hvar þörfin er fyrir uppbótina, en samkv. frv. ríkisstj. er alls ekki spurt um það, hvort sé forsvaranlegt að bæta upp laun þeirra einstaklinga, sem hafa 360 kr. á mán. eða meira, en ekki hafa fyrir neinum að sjá nema sjálfum sér. Ég álít það hvorki nauðsynlegt eða forsvaranlegt. Séu það aftur á móti fjölskyldumenn, skal þeim veitt uppbót, þótt þeir hafi allt að 650 kr. eða meira, ef þeir hafa stórar fjölskyldur. Og hvort eru þeim, sem stórar fjölskyldur hafa, greiddar meiri uppbætur eftir till. n. eða frv. ráðh.? Það orkar ekki tvímælis, að þeir fá betri uppbætur samkv. till. n. en eftir frv. hæstv. ráðh. Svo kemur þriðja atriðið, þ. e.: Er þörf á að bæta laun þeirra manna, sem hafa yfir 650 kr. í laun, eins og ástandið er nú? Till. n. segja, að þeir skuli fá uppbætur fyrir hvert barn, sem þeir eiga, en annars ekkert. Er það forsvaranlegt, að mönnum, sem hafa yfir 650 kr. laun — og ég veit, að það eru allmargir — séu veittar uppbætur á þau laun á þessum tímum? Þetta verður hver þm. að leggja niður fyrir sér og meta eftir sinni sanngirni og greiða svo atkv. samkv. því. Ég er ekki í vafa um, að hjá miðstéttunum í þessum starfsmannahóp er rík þörf fyrir uppbætur, og þeim mönnum álít ég, að till. n. veiti betri bætur, en að hinum, sem ekki hafa þörf fyrir uppbætur, séu einnig greiddar þær, vil ég ekki. Ég vil ekki, að að óþörfu sé farið þannig með fé ríkisins á þeim alvarlegu tímum, sem nú standa yfir.

Um ræðu hv. 6. þm. Reykv. vil ég segja það, að þótt hann kalli ekki allt ömmu sína, þegar hann þarf að beita blekkingum til að reyna að sannfæra aðra, og þótt hann tefli oft á tæpasta vaðið, þegar hann talar um, hvað sé satt og hvað ósatt, og taki þá oft munninn nokkuð fullan, þá held ég, að hann hafi sjaldan teflt tæpara en þegar hann fer að reyna að láta líta þannig út, að síðasta Alþingi hafi ákveðið með lögunum um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, að þessu frv. skyldi svona háttað eins og ríkisstj. leggur það nú fyrir þingið, og hann gerist svo frekur, að hann leyfir sér að vitna í l. og reyna að láta líta svo út sem þetta sé þannig ákveðið í 5. gr. 1., þar sem stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða í reglugerð verðlagsuppbót á laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, svo og ríkisstofnana“. Ég sé ekki, að í gr. standi meira en þetta, og ég sé ekki, að þar séu nein fyrirmæli um, að ríkisstj. skuli bera fram frv. í því formi, sem hv. fjmrh. hefir nú gert. Ég tel það furðulegt, að alþm. skuli leyfa sér með gögnum, sem þingið hefir sjálft undir höndum, að reyna að blekkja menn á þennan veg. Það er enginn nema þessi hv. þm., sem getur fundið þarna út fyrirmæli um, að ætlazt sé til, að dýrtíðaruppbót sé greidd embættismönnum og öðrum starfsmönnum ríkisins á sama hátt og gert hefir verið samkvæmt 1. um gengisskráningu með laun verkamanna samkv. 2. gr. Þar sem komið var að þinglokum, þegar gengisl. voru samþ., þótti ekki vera tími til þess að ákveða dýrtíðaruppbótina á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins, en það segir heldur ekkert, þótt í lok síðasta þings hefði verið talið sanngjarnt að fara þar inn á svipaða braut og gert er með þessu frv. og gert hefir verið viðvíkjandi launum verkamanna, því tímarnir eru nú þegar svo breyttir, að það nær engri átt að láta hið sama gilda um verkamann og embættismenn og starfsmenn fastra ríkisstofnana. Ég skil ekki annað en að hv. þm. finni, að ástandið í okkar landi hefir breytzt frá því að síðasta þingi lauk. Siglingar okkar til Norðurlanda hafa alveg teppzt, a. m. k. í bili, og enn er ekki séð, hvort þær geta hafizt á ný nú á næstunni. Siglingar til Englands eru orðnar miklu torveldari, ég veit ekki betur en að eitthvað af skipum okkar sé þar fastsett sem stendur, svo að eina leiðin, sem okkur stendur opin, er að sigla til Ameríku. Það sjá allir hv. þm., hvort þetta muni ekki hafa allmikil áhrif á fjárhagsástand landsins. Við vitum meira að segja ekkert nema siglingar okkar stöðvist alveg einhvern næstu daga, og hvað snertir afurðir okkar, þá er ólíkt erfiðara að koma þeim í verð nú en verið hefir undanfarið. Það virðist líka einkennilegt, að svo gáleysislega skuli farið af stað eins og með þessu frv., þegar ríkisstj. er á sama tíma með öðru frv.— sem virðist stafa af því, hve hæstv. fjmrh. telur útlitið ískyggilegt — að fara fram á að fá heimild til að skera niður fjárframlög til annara stétta þjóðfélagsins um allt að 35%. Og þó er það vitað, að þessi fjárframlög eiga að ganga til þess að hjálpa þessum stéttum til að geta lifað. Mér finnst ekkert samræmi vera á milli þessa. Meira samræmi hefði verið í því að fara fram á að fá að skera niður um 35% öll hæstu launin í landinu, bæði hjá ríkinu og einstaklingsfyrirtækjum. En að koma með frv., sem gengur út á að veita þeim, sem hæst hafa launin, allt að helmingi hærri dýrtíðaruppbót heldur en þeim, sem lægst hafa launin, — þar liggur sá hugsanagangur á bak við, sem ég skil ekki. Það getur verið, að þetta væri í sjálfu sér réttlátt, en eins og ástandið er, þá er þetta alls ekki hægt.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði um, að hann vissi um margt láglaunafólk, sem hefði ýmsa á framfæri, t. d. vissi hann um eina stúlku, sem hefði fyrir móður sinni að sjá. Ég veit ekki betur en að það standi í till. að menn eigi ekki að fá dýrtíðaruppbót á 360 kr., ef þeir hafa ekki fyrir neinum að sjá nema sjálfum sér. Ég sé ekki betur en að hv. þm. hafi þarna slegið alveg framhjá í markinu, því að ef þessi stúlka, sem hann talaði um, hefir fyrir öðrum að sjá en sjálfri sér, þá á auðvitað að taka tillit til þess. Um hitt atriðið, sem hv. þm. talaði um, að ekki væri rétt að reikna út frá stofnlaunum, þar sem þau væru mjög lág hjá sumum, eins og t. d. símriturum, þá er það mikil spurning, hvort þeir myndu ekki fá meiri uppbætur með því, að reiknað væri af stofnlaunum og þeir kæmust þar með í hærri flokk, en ef þeir fengju uppbætur á öll launin samanlagt og lentu í lægri uppbótarflokki. Auðvitað geta komið fyrir einstök tilfelli, sem falla niður þarna á milli, þannig að einum geti verið betra að taka uppbót af stofnlaununum og öðrum af heildarlaununum, en ég hygg, að það jafni sig nokkurn veginn upp í heildarupphæðinni.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta, en ég tel það merkilegt á þessum alvarlegustu tímum, sem Alþingi mun nokkurn tíma hafa setið, að sjá, hvernig gengið verður að því að afgreiða þetta mál.