16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Sigurður Kristjánsson:

Það eru aðeins örfá orð. Mér skildist á hv. frsm., að hann vildi halda því fram, að ég hefði farið með blekkingar, og jafnvel ósannindi átt að felast í því, sem ég las upp úr 5. gr. 1. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi. Ég veit nú ekki, hvað er hægt að fara réttara með tilvitnanir en að lesa þær upp orðrétt. Hann sagði það ranglega, að ég hefði bætt því við, að ríkisstj. væri með þessu fyrirskipað að bera fram þetta frv. á líkan hátt og þar eru gefin fyrirmæli um verðlagsuppbót til ýmissa starfsstétta í landinu. Ég sagði ekki þetta, heldur það, að þar sem þetta væri í áframhaldi af þeim reglum, sem settar eru með þessum l. um kaupuppbætur, þá hefði það verið eðlilegt, að ríkisstj. sniði sitt frv. mjög eftir því. Ég hefi ekkert sagt um það, að ríkisstj. væri þarna skipað að bera fram þetta frv., enda gat ég það ekki, þar sem ég las upp úr l. fyrirskipun til hæstv. ríkisstj. um að semja um þetta reglugerð. Um þetta sagði hv. frsm. réttilega, að þetta form hefði verið haft af því, að tími var of naumur til þess að afgr. um það l. En mér finnst eðlilegt, að ríkisstj. hafi heldur kosið að svo stöddu að láta A1þingi samþ. þessa reglugerð, og hafi því komið með frv., og ég held ekki, að neitt óeðlilegt sé við það, þótt hún hafi heldur kosið að hafa fyrir þessu lagabókstaf heldur en heimild til þess að setja reglugerð. Ég skil ekki hvernig hv. frsm. hefir getað fundið út úr þessu, að það væri blekking af minni hálfu. Það er fullkomlega eðlilegt, eins og hv. fjmrh. tók fram og ekki hefir verið vefengt af hv. fjhn., að sníða þessar till. eftir þeim reglum, sem settar voru um launauppbót til vissra starfsstétta í þjóðfélaginu samkvæmt l. um gengisskráningu. Þetta er viðurkennt af hv. fjhn. með því, að hún hefir ekki breytt þeim grundvelli frv. Að ég minnist á þetta stafar af því, að beint hefir verið sérstökum ámælum til hv. fjmrh. fyrir að bera þetta frv. fram. Ég skil ekki, hvað við er átt með því annað en að blekkja þjóðina og telja henni trú um, að hæstv. fjmrh. sé þarna að fara fram á eitthvað við Alþingi, sem hann hafi enga heimild haft fyrir. En ég vil þá spyrja hv. þm., hvað hann haldi, að Alþingi hafi meint með því að samþ. þessa 5. gr., þar sem það heimilar ríkisstj. með reglugerð að ákveða verðlagsuppbót á laun starfsmanna og embættismanna ríkisins. Heldur hann, að Alþingi hafi meint með því, að það ætti ekki að greiða þessar uppbætur? Annars er hv. þm. bezt að segja ekki mikið um þetta efni. Ég minntist aðeins á þetta af því, að ég vil, að hið sanna komi fram í þessu efni, svo að ekki sé verið að breiða út ósannar fregnir og blekkingar um afstöðu hæstv. ríkisstj. og þingsins til þessa máls, sem er í fullu samræmi við þá heimildartill., sem samþ. var á síðasta þingi.

Þá var það annað atriði, sem ég ræddi áður, en ég heyrði ekki, að hv. frsm. kæmi að. Það var það atriði í brtt. n., að reikna skyldi uppbótina af stofnlaunum. Ég held, að því hafi ekki verið hnekkt, .að stofnlaunin eru í miklu ósamræmi hjá hinum mismunandi stéttum hjá ríkinu, og þar leiðandi er mjög varúðarvert að setja þessa reglu inn í l., án þess að því fylgi nánari útskýring.