04.03.1940
Efri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

2. mál, happdrætti

Frsm. (Magnús Jónsson):

Eins og nál. á þskj. 36 ber með sér, hefir fjhn. orðið sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Einn hv. nm. hefir þó skrifað undir nái. með fyrirvara, en ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að sá hv. nm. sé okkur hinum nm. sammála um efni frv. í heild. Ég hygg, að fyrirvari hans hafi verið gerður vegna þess, að þegar málið var afgr., hafi honum þótt ástæða til að athuga betur um það, hvort framlengingartíminn, 3 ár, væri hæfilega ákveðinn. Annars mun hann sjálfsagt gera grein fyrir sínum fyrirvara, sérstaklega ef hann er í öðru fólginn en þessu.

Ég hygg, að ég geti, svo framarlega að ekki verði óskað sérstaklega eftir upplýsingum um málið, sparað mér að flytja hér um það langa ræðu, því að málið er ákaflega einfalt. Það liggur í augum uppi, að þegar háskólinn fékk 10 ára einkaleyfi til þess að reka happdrætti til að koma sér upp húsi, þá var sá tími ákveðinn að verulegu leyti út í bláinn, því að báðir liðir dæmisins voru óþekktar stærðir og engin leið til þess að gera sér grein fyrir þeim. Happdrætti hafði aldrei verið prófað fyrr hér á landi. og ekki var þá hægt fyrirfram um það að vita, hvað það mundi gefa af sér. Og hinsvegar hafði ekki verið gerður neinn uppdráttur af húsinu, sem háskólinn þurfti að byggja. Menn höfðu ekki gert það upp við sig, hve stórt hús skólans þyrfti að vera. 10 ára tíminn var ekki annað en áætlun, sem gerð var af handahófi, það stendur nú vel á þeirri tölu.

Reynslan hefir nú sýnt, að það var ekki fjarri sanni að ákveða þetta 10 ár, ef tímarnir hefðu verið svipaðir síðan eins og þeir voru, þegar happdrættið var stofnað. Ef þetta hefði verið gert á venjulegum tímum, er ég ekki í vafa um, hvernig þessu verki hefði verið hagað. Við, sem höfðum með þessi mál að gera fyrir háskólans hönd, sáum, að ef venjulegir tímar hefðu verið og treysta hefði mátt því, að þeir héldust venjulegir, þá hefði skynsamlegasta aðferðin verið í þessu máli að láta allt verkið við bygginguna bíða 2 ár og gera nákvæman uppdrátt um allt verkið áður en hafizt væri handa um byggingu. En það var dálítið annað en að þá væru venjulegir tímar, og það kom fljótt í ljós, að ástandið til að koma upp þessu húsi fór versnandi. Þegar t.d. átti að fara að steypa upp húsið, var ekki hægt að fá steypumótatimbur með góðu móti. Verktakarnir voru að reyna, en áttu í erfiðleikum með það, að fá steyputimbur til byggingarinnar. Þessi erfiðleiki hélt áfram og fór sí og æ í vöxt. Þá var ákveðið að skjóta inn í, áður en frekar væri aðhafzt í því að koma upp húsi fyrir sjálfan háskólann, byggingu fyrir rannsóknarstofnun háskólans, en til þess gengu tekjur happdrættisins töluvert á annað ár. Þegar svo var farið að fást við háskólabygginguna. kom í ljós, að skilyrði til þess, að hægt væri að koma húsinu upp fyrir nokkuð nálægt því verði, sem var hugsað sér, var að hraða byggingunni eins og mögulegt væri. Þessi stefna var tekin. Og reynslan hefir leitt betur og betur í ljós, að þetta var rétt stefna. Og því var hert á þessari stefnu meira og meira, og byggingunni hefir verið hraðað meira en tekjur happdrættisins hrukku til og þannig byggt fyrir sig fram fyrir væntanlegar tekjur, þannig að nú er búið að taka á fjórða hundrað þús. kr. lán, til að halda áfram byggingunni fyrir. Og ég hygg, að enginn, sem vill, að húsið komist upp, harmi, að þetta hefir verið gert.

Nú er það komið upp, að langt er frá því, að 10 ára tekjur happdrættisins nægi til þess að ljúka þessari byggingu að öllu leyti, að meðtöldum kostnaði við lóð og innanstokksmuni, sem skólinn þarf að fá, og öllu, sem útbúnaði skólans tilheyrir.

Þegar farið var fram á það við ríkisstj., að hún flytti þetta frv., þá var álitið, að það væri meira en 2 ára tekjur happdrættisins, sem þyrfti til háskólabyggingarinnar enn umfram það, sem þegar hefir komið inn til hennar, til þess að ljúka verkinu. Þetta hefir síðan verið athugað betur, og kom þá í ljós, að alls ekki mun veita af þriggja ára tekjum happdrættisins til að ljúka húsbyggingunni. Og eftir því sem lengra líður hygg ég, að mönnum finnist það hæpnara, að hægt verði að ljúka byggingunni fyrir þriggja ára tekjur happdrættisins, því að nú þýtur vöruverð upp, og þar með byggingarefnis, og erfiðleikarnir á því að byggja aukast gífurlega. Það er því sýnt, að annaðhvort verður að ljúka byggingu hússins í skyndi eða að láta það bíða um svo og svo langan tíma. Það, sem hefði e.t.v. mátt deila um — en það þýðir auðvitað ekkert að tala um það á eftir —, er það, hvort rétt hafi verið ákveðið um stærð hússins, eða hvort ekki hefði mátt komast af með að byggja minna hús. En reynsla okkar er, að öll hús, sem reist hafa verið hér á landi, kannske sum í eitthvað hliðstæðu augnamiði, hafa öll eftir stuttan tíma orðið of lítil. Og ég geri ráð fyrir, að eins geti farið um þetta hús. Ég set það eins og milli sviga hér fram, að það hafa gengið óttalegar ýkjusögur um þetta hús. Ég heyri menn tala um það sem eitthvert langstærsta hús, sem reist hafi verið hér á landi. Þetta er vitanlega alls ekki rétt. Húsið er með stærri húsum, sem reist hafa verið hér á landi að vísu, en ekkert umfram það, sem hefir sézt hér á landi.

Það, sem mætti um þetta segja annað en það, sem ég hefi tekið fram, er e.t.v. það, að hugur einhverra gæti hvarflað að því, að það lægi ekki á þessari framlengingu nú, en hægt væri að reisa húsið eftir því sem tekjur happdrættisins hrökkva til, en láta bíða að gera þessa framlengingu þangað til að því kemur, að knýjandi nauðsyn krefði, að hún væri gerð. En ég hygg, að hv. þm. verði það við nánari athugun ljóst, að það ber að hraða þessu máli gegnum þingið, af því að ef ljúka á húsinu nú í skyndi, þá þarf að taka laun. En slík lántaka er óforsvaranleg, ef ekki er hægt að syna fram á, að happdrættið fái nægilegt fé fyrir háskólann til þess að endurgreiða lánið. það er ekki hægt að fá lán upp á óljósa von um það, að happdrættistíminn verði framlengdur nauðsynlega langan tíma.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en óska þess, að hv. þd. afgr. málið nú og vildi hraða því svo áfram, að málið geti fengið afgreiðslu sem allra fljótast.