18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Vilmundur Jónsson:

Í brtt. á þskj. 504, sem meiri hl. fjhn. ber fram, er farið fram á, að þeir embættismenn og starfsmenn, sem hafa yfir 8000 króna laun, fái enga verðlagsuppbót samkv. frv. Þegar þetta er borið saman við frvgr., sem till. á við, er augljóst, að hér er átt við það, að þeir menn, sem hafa 8000 krónur í laun úr ríkissjóði, fái ekki neina verðlagsuppbót. Þar sem með þessari till. er snúið inn á þá braut að gera fyrirhugaða dýrtíðaruppbót að launajöfnun, er augsýnilegt, að með þessu miðar til nokkurs misréttis. Það er vitanlegt, að einn og sami maður getur haft miklu meiri tekjur en hann hefir hjá ríkinu. Ég skal nefna dæmi þessu til skýringar úr minni starfsgrein. Ég nefni til héraðslækna, sem hafa e. t. v. 5000 króna árslaun, en þar að auki margir annað eins eða meira fyrir unnin læknisverk, og komast þannig yfir 8000 kr. í árstekjur, og sumir langt yfir það. Héraðslæknar eiga eftir sem áður að fá verðlagsuppbót án tillits til tekna, en aftur fastráðinn læknir, sem aðeins fær 8000 krónur úr ríkissjóði og engar aukatekjur, hann fær eftir þessari till. enga verðlagsuppbót. Svona mætti nefna fjölda dæma. Ég geri ráð fyrir, að menn vilji lagfæra þetta. Úr því að gera á þessi l. að tekjuöflunarlögum, verður ekki komizt hjá að taka tillit til allra tekna þeirra, sem í hlut eiga. Það skiptir vitaskuld ekki máli, hvort tekjurnar eru að öllu eða nokkru leyti úr ríkissjóði. Annars gætir svo mikils misréttis, að frágangssök væri að samþ. þessa brtt. nema samþ. fyrst brtt. þá, sem ég hefi leyft mér að bera fram, og það er einmitt það, sem ég fer fram á, að gert verði.