04.03.1940
Efri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

2. mál, happdrætti

Bernharð Stefánsson:

Eins og hv. frsm. fjhn. gat um, skrifaði ég undir álit n. með fyrirvara. Og hann skýrði einnig rétt frá því, í hverju fyrirvari minn væri fólginn, það sem það náði. Það er nefnilega ekki svo að, að ég sé á móti þessu máli, og ekki heldur þannig, að ég hafi staðráðið að gera neinar brtt. við frv. En eins og hann sagði, taldi ég mig ekki hafa nægilega glöggar heimildir um það, að þessi framlenging, um 3 ár, sem farið er fram á í frv., væri nauðsynleg til þess að háskólabyggingunni geti orðið lokið. Ég tel það alveg sjálfsagt, að úr því að ríkið á annað borð afhenti háskólanum þennan rétt til þess að reka hér happdrætti, þá haldi háskólinn þeim rétti meðan þörf er á, til þess að hann geti komið upp húsinu með þeim tekjum, sem nauðsynlegar eru. En á hinn bóginn tel ég, að þessi réttur megi ekki haldast lengur en þörf er á til þess að ná þessu takmarki — nema þá því aðeins, að því verði breytt og happdrættið haft eftirleiðis til rekstrar háskólans. Það er náttúrlega mál, sem mætti tala um.

Það er nú getið um það hér í grg. frv., að í gr. l. um happdrættið sé trygging fyrir því, að rétturinn til happdrættisins hverfi aftur til ríkisins, þegar háskólinn þarf ekki lengur á því að halda, og því mætti kannske virðast sem það væri óþarft að vera með nokkra varasemi um að framlengja leyfistímann, því að leyfið yrði þá tekið af háskólanum, þó að þessi tiltekni tími, sem nefndur er í frv., væri ekki á enda, ef það sýndi sig, að það væri fært. En eftir þeim upplýsingum, sem hv. frsm. gaf nú hér í hv. d. og einnig í n., þegar hún hafði mikið til meðferðar, þá mun einmitt vera meiningin að veðsetja eða gefa tryggingu í þeim tekjum, sem háskólinn býst við að hafa af happdrættinu þann tíma, sem frv. nefnir, og séu tekjur af happdrættinu yfir ákveðið árabil veðsettar, er ekki hægt að svipta háskólann þessum tekjum aftur, fyrr en það árabil er á enda. Ég sé því ekki, að þetta ákvæði gr. laganna tryggi mikið í þessu sambandi.

Það kann nú að virðast, að það sé ekki mikilsvert þetta, sem ég tók fram. En það, sem ég ber fyrir brjósti, þegar ég er að gera aths. um þetta, er það, að mér virðast hér vera svo mikil verkefni framundan fyrir ríkið að inna af hendi um dýrar byggingar, ef allt fer með felldu og ófriðarástandið getur horfið fljótlega, að það muni kannske ekkert veita af, að ríkið taki happdrættið í sínar hendur sem allra fyrst að hægt er háskólans vegna, einmitt til greiða fyrir þær byggingar, sem framundan er að reisa. Sem sagt, ég óska þess, að áður en ég bind mig endanlega við að samþ. þetta frv. óbreytt, þá liggi fyrir skýrslur um fjárhagsástæður byggingarinnar og áætlanir um það verk, sem ólokið er, svo glögglega sjáist, hvort þörf er á svo löngum leyfistíma sem farið er fram á í frv.

Nú á stundinni barst mér í hendur plagg, sem ég býst við, að töluverðar upplýsingar séu í um þetta efni. En ég hefi ekki haft tíma til þess að kynna mér það enn. Ég mun nú samþ. þetta frv. óbreytt við þessa 2. umr. málsins. Og það verður því undir þessum upplýsingum komið, sem ég býst við að verða búinn að kynna mér til hlítar fyrir 3. umr., hvort ég þá geri nokkrar brtt. við frv., sem yrðu þá, ef ég gerði þær, sennilega aðeins um leyfistímann.