18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Það hafa heyrzt raddir um það frá einstökum hv. þm., að þeim hefði þótt undarleg afgreiðsla þessa máls hér í dag við 2. umr. málsins. Ég er hissa á þessum ummælum. Í fyrsta lagi vegna þess, að það er ekki eingöngu hæstv . fjmrh., sem hefir borið frv. fram, heldur ríkisstj. í heild. Ennfremur var frv. afgr. í samræmi við frv. frá Ed. Og loks í þriðja lagi var fyrirfram samið um afgreiðslu þessa máls alveg samhljóða því, sem fyrir lá frá stj. og Ed., svo að mig furðar, að menn skuli koma með aðra eins fjarstæðu, og svo kórónar einn hv. ræðumaður þetta með því að leggja til, að málinu verði vísað til stj. til að greiða fram úr málinu, þó að hún hafi lagt málið fram. Hvers skyldi maður frekar vænta af stj.? Skyldi hún ekki þræða sömu götu? Ég held, að þetta sé hreint og beint að leika hér nýjan skollaleik.

Menn tala mikið um ástandið eins og það sé nú fjárhagslega. Það hafi verið áætlaðar 350 þús. kr. í dýrtíðaruppbót árið 1941, og það muni ekki hrökkva nærri því, ef þetta frv. verður samþ. Það má vel vera, þó að ég geti ekki gizkað á neinar tölur. En ég vil benda á, að þegar talað er um, að nauðsynlegt sé, að atvinnuvegirnir geti þrifizt og að framleiðslan kikni ekki undir ofurmagni örðugleikanna, þá bætir það ekki úr, þó að embættismannalýður ríkisins eigi að svelta. Ég man það, að þegar l. um gengisskráningu voru sett í fyrra, þá átti það að vera til þess að lyfta undir okkar framleiðslu til lands og sjávar; svo að hún gæti staðið af sér þær þrengingar, sem hún hefði við að búa, og var þá heitið á þegnskap manna, hvort sem þeir voru verkamenn eða starfsmenn þess opinbera, að þeir færu hóflega í kröfur um kaupgjald. Nú er dýrtíðin komin með öllum sínum þunga, og þá fyrst er talað um, að nauðsynlegt sé að bæta þessum mönnum upp, og hæstv. stj. hefir farið þessa leið, að leggja frv. fyrir þingið um að bæta launin upp eftir vissum hlutföllum, og þá standa menn á blístri af heilagri vandlætingu og kjósa helzt að láta enga uppbót af hendi rakna. Launalögin eru rúmlega 20 ára, og það er margupplýst, að þessi launalög eru gömul og úrelt, og það hefir sýnt sig, að ekki er hægt að halda þau, því að það er ekki hægt að halda mönnunum við þessi störf, af því hvað þau eru lág. Þess vegna hefir verið þrædd sú leið, að láta þessa embættismenn fá önnur störf til tekjuaukningar, en það hefir komið fram ár eftir ár, að eitthvert erfiðasta viðfangsefnið, sem fjvn. hefir átt við að stríða, er einmitt þetta, en þetta er aðeins af þörf og viðurkenningu á, að grunnlaunin eru of lág, og hefir orðið að bæta þau upp með nýjum störfum. Ég held, að enginn hv. þm. vilji láta opinbera starfsmenn svelta. Ég held, að enginn vilji halda fram, að það sé heilbrigt, því að afleiðingin yrði sú, að enginn almennilegur maður fengist í opinber störf, heldur mundu þeir leita annara fanga til þess að geta fengið í sig og á, jafnvel yfirgefa sitt faglega starf, sem hefir kostað þá mikið fé og mörg ár til að afla sér þekkingar á, og leita sér nýrra verksviða til þess að geta fengið sæmileg kjör. Ef menn líta á þessar ástæður, þá hygg ég, að mönnum sé ljóst, að stórkostleg sanngirni mælir með, að þessum mönnum séu nú eitthvað bætt upp þeirra lágu laun. Mér finnst, að hæstv. stj. hafi heppnazt að þræða meðalveg og farið hóflega í sakirnar, og sérstaklega finnst mér mjög mikilsvert og ástæða til að benda á, að stj. hefir viðurkennt, að allir embættismenn og opinberir starfsmenn eigi sanngirniskröfu til einhverrar dýrtíðaruppbótar, þó að hinsvegar séu nú ákvæði um, að menn fái ekki dýrtíðaruppbót fyrir það, sem er umfram 650 kr. á mánuði.

Ég vil ítreka það, að ég álít, að það nái engri átt að vísa málinu til stj., því að hún hefir borið þetta frv. fram. Og hvers eigum við annars af henni að vænta en að hún haldi áfram þeirri stefnu, sem hún hefir tekið þar?