18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Skúli Guðmundsson:

Því hefir verið haldið fram af hv. þm. Ak. og fleirum, að þetta frv. sé borið fram af stj. í heild. Það er ekki rétt að öllu leyti. Frv. er flutt í Ed. af fjhn. þeirrar d., og stendur í grg., að það sé flutt eftir tilmælum hæstv. fjmrh., og að grg. og rökstuðningurinn sé saminn af fjmrn. Hitt mun rétt vera, að stj. mun hafa verið sammála um að flytja frv. um þetta og óska eftir, að Alþingi setti löggjöf um það, þó að ég geri ráð fyrir, að frv. hafi verið samið af hæstv. fjmrh. eða rn. hans.

Hv. þm. A.-Húnv. ræddi nokkuð þá brtt., sem ég á á þskj. 503 ásamt hv. 2. þm. Árn., og taldi hv. þm., að hefði átt að taka upp þessa reglu fyrr, t. d. í gengisl. á síðasta þingi. Ég hefi rætt nokkuð um það fyrr, að þar er að ýmsu leyti öðru máli að gegna, og tel ég, að eðlilegt sé að byrja á að taka upp þessa reglu, þegar um er að ræða að ákveða kaupuppbót til starfsmanna ríkisins, þó að ég hefði viljað, að þessi regla yrði tekin upp enn víðar.

Hv. þm. sagði, og þar er ég honum alveg sammála, að æskilegast væri að taka með þær framleiðsluvörur, sem seldar eru á innlendum markaði, en það sáum við ekki fært, því að svo er ákveðið, að þeir útreikningar, sem miða skal við, fari fram ársfjórðungslega, en við vitum, að það er ekki gert upp nema einu sinni á ári, hvað t. d. fæst fyrir landbúnaðarvörur, sem seldar eru á innlendum markaði. Það sést t. d. ekki fyrr en eftir árið, hvað bændur fá fyrir mjólkina, og sama er að segja um aðrar vörur, sem seldar eru á innlendum markaði. Þetta er því ekki hægt. En þrátt fyrir það, að benda megi á, að till. okkar sé ekki eins fullkomin að öllu leyti og æskilegt væri, þar sem er ekki hægt að ná út yfir þetta allt eins og æskilegt hefði verið, þá er ekki hægt með neinni röksemd að halda því fram, að fyrir það eigi að hafna henni. Ég er því undrandi, ef hv. þm. A.-Húnv., sem hefir lýst yfir, að hann telji þetta rétta stefnu og í samræmi við það, sem hann hafi haldið fram í þessum málum yfirleitt, — ég er undrandi, ef hann vill nú ekki fallast á þessa till., þó að hún sé ekki eins fullkomin og æskilegt hefði verið. Ég vænti því, að hann taki þessa afstöðu sína til endurskoðunar og geti orðið því fylgjandi, að till. okkar nái fram að ganga.