22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Bernharð Stefánsson:

Frsm. fjhn. er hér ekki mættur og vil ég því gera grein fyrir brtt., sem fjhn. ber fram á þskj. 527, um að síðasti málsl. gr. falli niður, en hann er um það, að þeir, sem hafa 8 þús. kr. tekjur, eigi ekki að fá uppbót. Það þarf náttúrlega ekki að færa nein rök að því, að eins og þetta er orðað í frv., er það alls ekki frambærilegt að hafa slík ákvæði í l. Hér er ekki einu sinni talað um, að þetta séu nettótekjur eða skattskyldar tekjur eða neitt slíkt, heldur aðeins sagt 8 þús. kr. tekjur. Það gætu vitanlega verið brúttótekjur ýmislega lagaðar, t. d. eins og af atvinnurekstri og annað slíkt. Og það er ekki þar með sagt, þó að maður hafi slíkar brúttótekjur, að hann hafi nema sárlítið af því í laun eða nokkuð til að lifa af. Auðvitað getur komið fleira til greina um að breyta heldur en að fella þennan málslið niður. Það hefði vitanlega mátt gera brtt. um að orða þetta svo, að þeir, sem hefðu 8 þús. kr. laun á ári, skyldu ekki fá neina verðlagsuppbót. Og með því hefði ákvæðið orðið frambærilegt og framkvæmanlegt. En fjhn. leizt svo, að réttast væri að bera fram brtt. þannig, að færa frv. í sama horf í þessu efni eins og það fékk hér í hv. d., þegar það var hér fyrst til meðferðar. Þá var, eins og menn muna, sett ákvæði inn í frv. um það, að ekki yrði greidd verðstuðulsuppbót af hærri upphæð en 650 kr. á mánuði, og með þessu greiddu flestir hv. þdm. atkv., og n. gerði því ráð fyrir því, að d. mundi halda sig við það, sem áður hefir verið gert hér í hv. d. í þessu efni, og ber því fram brtt. í samræmi við það.

Ég er nú ekki frsm. n. um þetta og sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Þetta er einfalt mál, og skilja allir, við hvað er átt í þessu efni. En það hygg ég, að allir geti verið sammála um, að niðurlag 2. gr. getur ekki verið eins og það nú er í frv.