22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Bernharð Stefánsson:

Ég held, að þetta sé ekki rétt hjá hv. 1. þm. N.-M. (PZ), að það hafi verið af misskilningi, hvernig síðasti málsl. 2. gr. frv. er orðaður. Ég hefi það fyrir satt, að í hv. Nd. hafi till. um þetta verið orðuð á þennan veg alveg að yfirlögðu ráði. Og mun hafa vakað fyrir flm. hennar beinlínis það, að þeir vildu líta á þessa verðstuðulsuppbót sem hjálp til þeirra, sem mest þarfnast hennar, en ekki sem eðlilegar uppbætur á laun vegna verðfalls peninga, því að þá ætti jafnt að ganga yfir alla. Þess vegna vildu þeir taka tillit til allra tekna, hvort sem það væru laun úr ríkissjóði eða aðrar tekjur. En hinsvegar hefir ekki tekizt hönduglegar til en svo, að þetta ákvæði er vitanlega, eins og ég sagði áðan, með öllu óframbærilegt, því að hér gætu komið undir tekjur, sem maðurinn getur alls ekki á neinn hátt notað sér til framfæris, t. d. brúttótekjur af atvinnurekstri. Því að ýmsir starfsmenn þess opinbera hafa einhvern atvinnurekstur jafnframt. Ég skal játa, að einmitt með því að breyta þessu ákvæði á þann veg sem hv. 1. þm. N.-M. nú gerir till. um, þá er vel hægt að setja slíkt ákvæði þannig breytt inn í l. Það væri engin vitleysa. Hitt verða menn svo að meta og gera upp við sjálfa sig, hver fyrir sig, hvort þeir eru yfirleitt með því, að þeir, sem hafa 8 þús. kr. laun, fái ekki neina verðstuðulsuppbót. Ég býst við, að hv. fjhn. líti þannig á, að þar sem þjóðfélagið hefir nú einu sinni ákveðið mönnum misjöfn laun, örfáum mönnum meira en 8 þús. kr. á ári, þá sé það rétt, að þeir fái einnig nokkra verðstuðulsuppbót, þegar kaupgildi peninganna minnkar.

Það er náttúrlega alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. S.-Þ., að útlitið er ekki neitt bjart framundan. En ég ætla í því sambandi að minna á það, að hér liggur nú fyrir þinginu frv., sem ég tel líklegt að verði samþ., þó að það sé ekki komið langt áleiðis ennþá, sem hefir inni að halda ákvæði um það, að fella megi alla dýrtíðaruppbót niður um 35%, ef mönnum finnst útlitið svo skuggalegt að því er snertir fjárhagsafkomu ríkisins, að þess sé þörf. Þá er líka vegur að vera blátt áfram á móti frv., og væri það eðlileg afstaða þeirra, sem búast við, að ríkið geti ekki greitt uppbótina. En ég hygg, að það séu ekki margir starfsmenn ríkisins, sem hafa yfir 8 þús. kr. í laun, þannig að fjárhagsafkoma ríkissjóðs verður svo að segja alveg sú sama, hvernig sem fer með þessa brtt. hv. fjhn. Að fella hana og samþ. brtt. hv. 1. þm. N.-M. munar sjálfsagt sama og engu að því er afkomu ríkissjóðs snertir. Annars skal ég játa það, að ég geri það ekki að kappsmáli, hvernig fer um þetta atriði. En ég kynni bara betur við það, ef hv. d. sýnist að láta þetta ákvæði standa, að þá væri það lagað þannig, að frambærilegt gæti talizt. Að fjhn. gerði ekki till. um að laga þennan málslið, var af þeirri einföldu ástæðu, að hún vildi fella hann niður. Og það er auðvitað þeirra, sem vilja halda þessu ákvæði, að bera fram brtt. um að orða það svo, að það fái staðizt í l. og sé ekki vitleysa.