22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég verð að biðja afsökunar á því, að ég hefi ekki verið viðstaddur þessa umr. Ég var boðaður á áríðandi fund, sem ég varð að vera á. Ég veit þess vegna ekki, hvað sagt hefir verið hér um málið, nema að nokkru leyti. En meðferð málsins af hendi fjhn. d. er svo einföld, að menn hafa fyllilega getað áttað sig á því, hvað hér er á seyði.

Þetta mál fór frá þessari hv. d. eins og ríkisstj. lagði það fram, nema hvað sett var í það hámark þeirra tekna, sem bæta skyldi upp. Og ég hélt, að það hefði með því fengizt samkomulag um málið. Sumir vildu ekkert slíkt hámark hafa, sumir vildu hafa strangari ákvæði um það, en ég hélt, að samkomulagsgrundvöllur hefði verið fundinn. Hv. Nd. felldi allar till. nema eina, en hún var á þann veg, að málið stenzt alls ekki á eftir. Þingið getur ekki afgr. það í því formi, sem það er nú, svo mjög rekast ákvæði þess hvert á annað. Þannig fær t. d. maður, sem hefir 650 kr. á mánuði eða 7800 kr. á ári, uppbót af því, en ekki því, sem hann hefir þar fram yfir. Aftur á móti á sá, sem hefir 8 þús. kr. tekjur á ári, ekki að fá neina uppbót. Nánara tiltekið: maður, sem hefir t. d. 7999 kr., á að fá uppbót, en sá, sem hefir 8 þús. kr., á ekki að geta fengið neitt. Þar fyrir utan er ennfremur það við þetta að athuga, að það þarf hreint og beint spámenn til þess að geta vitað það í janúar eða í ársbyrjun, hverjar árstekjurnar verða. Það má t. d. vel hugsa sér það, að einhver maður fái í desembermánuði svo miklar tekjur, að hann fari yfir 8 þús. kr. hámarkið, en hafi þangað til fengið greidda uppbót. Ég vil því spyrja: Hvað á að gera í slíku tilfelli? Á hlutaðeigandi maður að endurgreiða þá verðlagsuppbót, sem hann kann að vera búinn að fá hina fyrri mánuði ársins? Hitt dettur mér ekki í hug, að framkvæma eigi þetta hámarksákvæði þannig, að miða það við 8 þús. kr. brúttó tekjur, eins og einn hv. þm. virtist telja möguleika á.

Af því, sem ég nú hefi sagt, vil ég eindregið leggja það til, að hv. d. haldi sér við þá málamiðlunartill., sem hv. fjhn. hefir orðið ásátt um, og felli þetta ákvæði niður, og ég er þess fullviss, að hv. Nd. muni samþ. frv., þó að þessi leiðrétting verði gerð á því.

Þá hefir komið fram skrifleg brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. (PZ) um, að í stað „8 þús. kr. tekjur á ári samanlagt“ komi: 8 þús. kr. laun úr ríkissjóði. Þetta kann eitthvað að geta bætt úr mesta ágallanum, en getur líka orðið ósanngjarnt. Hvaða meining væri t. d. í því, að ég, sem er í bankaráði Landsbankans og fæ laun fyrir það, fengi verðlagsuppbót á embættislaun mín einungis af því, að bankaráðslaun mín væru greidd af Landsbankanum, en ekki ríkissjóði? Það hljóta allir að sjá, að þetta og því líkt væri ósanngjarnt. (Viðskmrh.: Það má bæta við á eftir orðunum „laun úr ríkissjóði“: eða opinberum stofnunum). Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir bendinguna, hún sýnir, að hann sér þó missmíði á þessu. Nei, það verður bezt að hafa ákvæði frv. sem næst eða líkust því, er þau voru, er þessi hv. d. gekk frá þeim upphaflega. Annars get ég vel sagt það hér, að ég er orðinn hálfhræddur við allar þessar uppbætur, mér virðast þær að ýmsu leyti vera að komast út í öfgar.

Ég vil svo að síðustu undirstrika það, að það eina, sem bægt er að gera skynsamlegt, eftir því sem málið horfir nú, er að samþ. brtt. fjhn. og fella allar aðrar brtt. Með því kemst það í sæmilegt horf.

Það kann svo vel að vera, að búið sé að taka flest af því fram við þessa umr., sem ég hefi sagt, þar sem ég gat því miður ekki verið við umr. fyrr en nú.