22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Brynjólfur Bjarnason:

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í lok ræðu sinnar; mest allt, er hann sagði, hefir áður verið tekið fram undir þessum umr. Það hefir hver af öðrum staðið upp til þess að gagnrýna frv. og benda á galla þá, sem það hafði tekið í meðförum Nd. Ég fæ ekki skilið, að það bæti neitt úr skák, þótt verið sé að benda á gallana án þess að geru nokkra tilraun til þess að bæta úr þeim. Það, sem fyrir liggur, er að sjálfsögðu að bæta úr göllunum eða leiðrétta þá.

Það, sem fyrir Nd. vakti, er að koma í veg fyrir, að greidd sé uppbót á há laun, enda þótt orðalag gr. þeirrar, er snertir þetta atriði, hafi ekki orðið sem bezt. Það er því það, sem þarf að laga. Brtt. mín leiðréttir alveg þessa smíðagalla og því ber að samþ. hana. Hún kveður skýrt á um það, sem Nd. hefir viljað segja, að enginn, sem hefir 8 þús. kr. laun á ári, skuli fá verðlagsuppbót, og að verðlagsuppbótin megi aldrei vera hærri en svo, að árslaunin verði samanlagt 8 þús. kr. Hér er hnúturinn leystur, svo óþarft er að eyða meiri tíma í umr. um þetta atriði nú.