22.04.1940
Neðri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Gísli Sveinsson:

Ég hefi nú í gegnum allar umr. þessa máls ekki tekið til máls um þetta frv., en það er ekki beinlínis af því, að ég hafi ekki haft hug á að láta í ljós skoðun mína á því, hvernig ýmsar tillögur hafa verið fram bornar hér, og hvernig þær hafa ekki aðeins stangazt á, heldur að ýmsu leyti gert þetta mál svo erfitt viðfangs, að það hefir verið ráðgáta, hvernig ætti að haga framkvæmdum, ef allt hefði verið samþykkt eins og það hefir komið frá n. Ég hefi um þetta allt haft þá reglu, að taka ekki annan þátt í afgreiðslu málsins en við atkvgr., og hefi um það haft þá sömu reglu, sem ég hefi haft um mál á þingi, bæði fyrr og síðar, nema þau hafi komið mér beinlínis við. Það má nú segja, að það sé ekki heppilegt að taka ekki annan þátt í afgreiðslu mála en þennan, og hefi ég ekki tekið hér til máls af því, að ég telji þetta mál snerta mig sérstaklega, en ég tel, að hér hafi svo margir um sárt að binda, og aðrir meira en ég. Ég get lýst því yfir, að ég gæti fallizt á það, að ekki kæmi til mála nein launauppbót, ef ekki væru aðrir verr staddir en ég, þótt þau laun, sem sýslumenn fá úti um land, séu ekki talin há. En það má öllu ofgera, og ég tel, að fjhn., eða sérstaklega einstakir menn innan n., því ekki eiga allir þar óskilið mál, gangi nokkuð langt í því að lýsa sinni skoðun á því, hvað sé rétt og hvað ekki rétt í þessu máli.

Hv. þm. A.-Húnv., sem ef til vill er form. n. eða a. m. k. hleypur hann fram fyrir skjöldu, vill tala um þessi mál eins og hann einn hafi vit á þeim, og tala um það, þegar talað er um að fjárhagurinn og afkoman í Reykjavík sé slæm, að það þurfi nauðsynlega að verja svo og svo mörgum millj. til beins styrks eða aðstoðar atvinnuvegunum, sem nú standi tæpt. Ég er ekki að mæla því bót, ef menn vilja rýra atvinnuvegina, en það virðist vaka fyrir þessum hv. þm., að ef talað er um að bæta kjör þeirra manna, sem fást við opinber störf, þurfi alltaf að koma á móti, að það megi ekki gera. Það þurfi þá að styrkja aðrar greinir, en sem betur fer, er ekki komið svo landbúnaðinum um allar jarðir landsins, að hann standi sig svo hörmulega, að það þurfi sérstakar milljónaráðstafanir nú til þess að hlaupa undir bagga, eins og hann vill gera með frv., sem hann hefir horið hér fram. En þessi hv. þm. og meiri hluti fjhn., sem ég veit ekki, hverjir skipa nú, því hún er víst nokkuð skörðótt, — ég geri þó ráð fyrir, að það séu 3 menn sem standa að þessu — þeir vilja nú á síðustu stundu reyna að stemma stigu fyrir framgangi málsins, með því að samþ. brtt., þar sem alveg er skipt um grundvöll fyrir málinu. Það, sem nú virðist vaka fyrir þessum mönnum, er að klifa á þessu, sem búið er að fella í Ed., 8 þúsund kr. hámark, sem ekki mætti yfirstíga til þess, að nokkur uppbót yrði á það veitt. Nú er eins og þessir menn hafi ekki aðgætt, hvernig 2. gr. frv. er. Þar segir, að „til 1. flokks skulu teljast laun 300 kr. eða minna á mánuði, til 2. flokks laun frá 300–400 kr. á mánuði, og til 3. flokks laun yfir 400 kr. á mánuði, þó þannig að af hærri mánaðarlaunum en 650 kr. greiðist einungis verðlagsuppbót af 650 kr., en ekki af því, sem þar er fram yfir.“ M. ö. o., að takmarkið er sjálfkrafa komið 8000 kr. Það er eins og hv. þm. og n. vilji ekki sjá þetta og kannast við það. Þegar talað er um 650 kr. mánaðarlaun, þá sjá hv. þm., að hér skakkar ekki miklu, og því, sem fram yfir er, má ekki greiða uppbætur af. Nú hefir margoft verið tekið fram, að það munar minnstu, hvort verið er hérna megin eða hinu megin við takmarkið. Eins og hæstv. fjmrh. tók fram, er þetta „princip“, regla, hvort greiða á uppbót af þessu eða hinu. Ef ekki á að greiða uppbótina á laun eða tekjur, þá ætti n. að koma fram með styrkfrumvarp eitthvað áþekkt því, sem hv. þm. A.-Húnv. flytur um tveggja millj. króna styrkinn. Sýnir það ekki neitt litla þrákelkni, að menn nenna að gefa þessu ýmiskonar nöfn og koma með þetta á síðasta degi þingsins til þess að koma í veg fyrir, að málið komist fram. Fjhn. var ekki of gott að koma með þetta og fá það rætt, en að koma með það æ ofan í æ, það kalla ég mikla málafylgju. Að efninu til er þetta það sama eins og kom fram hér í d. og fór til Ed. Nú er mér óskiljanlegt, að það geti verið nokkur meining í þessu eins og það fór frá Nd., að taka allar tekjur og girða þannig fyrir, að þeir, sem hafa undir 8 þús. kr., og mundu með uppbótinni ná þeirri upphæð, en hafa kannske ekkert meira að öðru leyti, hafi möguleika til þess að fá uppbót. — Þá er það till. hv. þm. N.-Ísf. Mér líkaði hún ekki. Hún er borin fram til þess að útiloka embættismenn, sérstaklega lækna, sem víða hafa miklar aukatekjur, frá því að næla sér í þær. Það er ekki nema gott við því að segja að hafa duglega lækna, og býst ég við, að allir vildu það, og landlæknir líka. Mér líkar þetta ekki, en samt er meira vit í því en þessu, sem nú kemur fram, að aðeins eigi að greiðast verðlagsuppbót af launum, sem tekin eru frá stofnunum, sem ríkið á eða styrkir. Það er nú svo blandað, hverjar stofnanir ríkið á, að ef ég væri spurður að, hvar takmörkin væru, mundi mig reka í vörðurnar. Þetta er bundið við opinber störf, og sumir þessara manna sjá rautt, ef launin koma frá því opinbera, en ef þau koma annarstaðar að, þá er allt gott. Ég skal hugga hv. þm. A.-Húnv. með því, að takmörkin eru í 2. gr. Ég er alveg rólegur með þetta, hefi ekki tekið þátt í málinu nema við atkvgr. og mun ekki gera það hér eftir nema alveg sérstakt tilefni gefist. Ég býst nú við, að hv. þingm. hafi, þar sem málið er á síðasta degi, athugað hvað málið er orðið ömurlegt bæði í sjón og reynd, og þess vegna sé ekki mikil hætta á, að þessi till. verði samþ., en ef hún verður samþ., er allt í sama öngþveitinu, ef þingið vill ekki fela ríkisstj. framkvæmdir þessara mála eftir þeim lögum, sem í gildi eru.

Hvað snertir 2. till. skilst mér, að ráðh. vilji til samkomulags mæla með henni. Ég vil þó benda á, að þessi till. er ekki laus við það, sem kom svo meinlega fram í ræðu hv. þm. A.-Húnv., að vilja ekki gera öllum jafnhátt undir höfði. Nú er því svo háttað, að hér eru komnar fram og hefir verið útbýtt frá Ed. brtt. á þskj. 544 við frv., sem borið var fram f. h. stj., að fella niður eða lækka ýmsar greiðslur skv. lögum. En meiri hluti fjhn. þessarar deildar leggur til í brtt. á þskj. 545, að ríkisstj. sé heimilt, ef fjárhagsörðugleikar vaxa, að fella niður verðlagsuppbótina að nokkru eða öllu leyti. Ráðh. er þannig heimilt, ef nokkrar líkur eru til, að örðugleikar fari vaxandi — en allir vita að þeir vaxa svo að segja daglega — að draga úr verðlagsuppbótinni eða fella hana niður með öllu.

En hvað segir svo á þskj. 544? Ég vil biðja hv. þm. að hafa þskj. fyrir framan sig; þar segir svo í II. lið, með leyfi hæstv. forseta: „Heimildir þær, sem gefnar eru í 1. gr. laga þessara, er skylt, ef til kemur, að nota hlutfallslega jafnt til niðurfærslu þeirra útgjalda ríkissjóðs, er þær ná til, enda sæti þá sömu hlutfallstölu niðurfærsla á gjöldum ríkissjóðs samkvæmt heimild í 22. gr. fjárl. fyrir árið 1941“. Og ennfremur segir í I. lið undir 1. tölulið: „Í stað orðanna „ef nauðsyn krefur“ í upphafi greinarinnar komi: ef fyrirsjáanlegt er, að tekjur ríkissjóðs bregðast verulega frá því, sem fjárlög gera ráð fyrir.“

Það sjá allir, hver munur er á þessum till. eða brtt. meiri hluta fjhn. Heimildina til þess að fella niður eða lækka ýmsar greiðslur samkv. lögum skal skv. brtt. 544 ekki nota nema fyrirsjáanlegt sé, að tekjur ríkissjóðs bregðist verulega, en skv. brtt. meiri hluta fjhn. við frv. það, er hér liggur fyrir, má fella niður verðlagsuppbótina, ef fjárhagslegir örðugleikar vaxa.

Þetta vildi ég benda á nú á síðustu stundu þessa máls. En eftir að búið er að flækja þetta mál og þvæla eins lengi og kostur er á, tíma menn loks ekki að sjá af neinni verðlagsuppbót til opinberra starfsmanna. Ekkert annað liggur að baki brtt. meiri hluta fjhn., og verði þær samþ., má með sanni segja, að síðari villan er margfalt verri en hin fyrri.