22.04.1940
Neðri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ef maður hefði ekki heyrt, hve oft hv. þm. Snæf. lagði áherzlu á, að hv. þm. A.-Húnv. væri flokksbróðir sinn, mætti maður halda, að rótgróinn kommúnisti hefði verið að tala, svo vel tókst hv. þm. A.-Húnv. að lýsa því, hvílíkt hyldýpi væri staðfest milli kjara verkamanna og fastlaunamanna ríkisins, og að þetta hyldýpi færi stöðugt vaxandi. Einstaka þm. hafa sýnt sig í því að vilja gera ráðstafanir til þess, að hæstu tekjurnar haldi ekki áfram að vaxa fyrir aðgerðir Alþingis, og því hefir komið fram till. þess efnis, að takmarka dýrtíðaruppbót til opinberra starfsmanna við 8000 kr. hámark og önnur till. um að afnema útsvarsfrelsi stórútgerðarmanna. Hvortveggja þessi till. sýnir viðleitni til þess að draga úr þessu hyldýpi, sem staðfest er milli verkamannastéttarinnar og hálaunamanna. En það virðist svo sem meiri hl. þingsins reyni ekki og vilji ekki draga úr þessum mun. Þess vegna er það ráð tekið að senda þingið heim, án þess að nokkuð sé gert til þess að bæta úr kjörum alþýðu. Hv. þm. Snæf. talaði um, að það þyrfti að draga úr þeim mun, sem væri á launum starfsmanna ríkisins og hinna háu launa, sem einstakir atvinnurekendur borga sínum hæstlaunuðu starfsmönnum. Ég kom í minni síðustu ræðu greinilega inn á afstöðuna milli þessara tveggja tegunda og gat þess, að nauðsynlegt væri að draga úr þeim mun, sem væri þarna á milli, á þann hátt, að laun hálaunaðra starfsmanna ríkisins og tekjur einstakra atvinnufyrirtækja lækkuðu. Það er óþolandi að láta það viðgangast, að menn geti haft 10—100 þús. kr. upp úr einstaka atvinnurekstri hér á landi, sem þar að auki er í sumum tilfellum skattfrjáls. Ég efast um, að alltaf sé farið eftir manngildinu, þegar embætti eru veitt, sem yfirvöldin yrðu þó að hugsa um, ef þau tækju hag alþjóðar til greina. Ríkið tekur í sína þjónustu menn, sem einungis gangast fyrir því, hve mikið þeir fá fyrir sína vinnu, en leggur ekkert upp úr hinu, hvort þeir hafa áhuga fyrir sínu starfi. Ég vil líka vekja eftirtekt á því, sem segir í 2. tölulið brtt. meiri hl. fjhn., að heimila ríkisstjórninni að fella niður verðlagsuppbótina, eins og farið er nú fram á. Nokkrir hv. þm. telja ófært að hafa 8 þús. kr. hámarkið, en aðrir eru með því að láta skera niður alla dýrtíðaruppbótina. Það er hugsað meira af hálfu einstakra þm. um hag hálaunamanna en um það, hvort embættismannastéttin fær nokkra dýrtíðaruppbót eða ekki. Á sama tíma sem 8 þús. kr. hámarkið er skorið niður, er ríkisstj. veitt heimild til þess að skera niður útgjöld ríkisins og fella niður dýrtíðaruppbót til þeirra starfsmanna ríkisins, sem hafa aðeins 2–3 þús. kr. í árslaun og þurfa að framfleyta af því 5 manna fjölskyldu. Það á að gefa ríkisstj. heimild til þess að svipta þessa menn uppbótinni af hálfu þeirra manna, sem berjast á móti því, að uppbótin verði takmörkuð við 8 þús. kr. Þegar ríkið er í svo miklum fjárhagsörðugleikum, að minnka þarf laun við starfsmenn þess, virðist eðlilegt að byrja á þeim embættismönnum, sem hæst hafa launin. En þannig er ekki unnið í þessum málum. Þess vegna álít ég í sambandi við 2. gr. frv., að niðurskurðarheimildin sé margfalt hættulegri en nokkurn tíma 8 þús. kr. hámarkið.