23.04.1940
Sameinað þing: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Einar Olgeirsson:

Það er nú búið að ræða þetta mál allmikið hér í þinginu, svo að það er ekki þörf á að ræða það mikið í viðbót. Ég verð að segja það, að ég var samþykkur þeirri breyt., sem Nd. gerði á 2. gr., en ég er andvígur 11. gr. og fylgjandi hverri þeirri tillögu, sem kemur fram um að fá hana burtu. Viðvíkjandi þessu með 8 þúsund kr. launin ætla ég ekki að fara inn á þau rök, sem komið hafa fram í báðum d., en langar til að minna hv. þm. á, hverskonar hugsunarhátt þeir sjálfir höfðu fyrir rúmu ári. Í lögum um gengisskráningu, eins og þau voru afgr. 4. apríl 1939 — og ég vil taka það fram, að við þm. Sósíalistafl. vorum þeim andvígir, sökum þess, hvernig verkamenn voru sviptir rétti sínum — þar var ákveðið um það í 2. gr., að almennir verkamenn skyldu fá nokkrar uppbætur, en ennfremur tekið fram í 3. gr. þessara laga, að kaupgjaldsákvæði 2. gr. nái til verkamanna, sjómanna, verksmiðjufólks og iðnaðarmanna, sem taka kaup sitt samkvæmt samningum milli stéttarfélaga og vinnuveitenda eða kauptöxtum, sem giltu fyrir gildistöku laga þessara. Þegar lögin um gengisskráningu voru samþ. 4. apríl, var talið sjálfsagt að bæta ofurlítið úr fyrir þeim, sem verst voru staddir, en sérstaklega að banna einstaklingsfyrirtækjum í landinu að hækka kaup við starfsmenn sína, og sérstaklega var talið, að það þyrfti að fyrirbyggja það, að einstaklingsfyrirtæki í landinu hefðu möguleika á því að hækka laun forstjóra sinna, á sama tíma og menn vitaskuld voru með því að svipta verkamenn réttinum til þess að ráða yfir sínu kaupi. Þetta var sá hugsunarháttur, sem þá ríkti. Þegar l. um gengisskráningu var breytt, var kaupkúgunin gagnvart verkalýðnum látin haldast, en þessu breytt, að einstaklingsfyrirtækjum var leyft að hækka launin og líka hálaunin. Við þm. Sósíalistafl. bárum fram brtt. við þetta, en allar slíkar brtt. voru felldar. Þá voru þm. þjóðstj. komnir þetta lengra á þessari slæmu braut. Nú þótti það ekki lengur nóg að fjötra verkamennina, heldur varð líka um leið að gefa hálaunamönnunum sitt. En ég vil segja það, að þegar kom fram till. um að veita sérstakar uppbætur, er ekki verið að fara lengra en farið var 4. apríl, það er verið að setja takmarkanir fyrir því, hvað mikið mætti hækka sérstök laun. Hinsvegar vil ég geta þess í sambandi við þetta, að það er engan veginn nægilegt út af fyrir sig, þótt samþ. sé, að embættismennirnir skuli ekki fá dýrtíðaruppbót á 8 þúsund kr. laun eða þar yfir. Ef rétt væri að farið um þetta, ætti Alþingi að ganga svo frá, að enginn hefði hærri laun en þetta, og ekki heldur hjá einstaklingsfyrirtækjum. Þetta væri hægt með lögum eins og í fyrra og líka með skattaálagningu. Svo vildi ég um leið og við erum að ræða þetta hér í þinginu sýna fram á, að ekki er rétt, að þeir, sem hafa 8 þúsund kr. laun, fái dýrtíðaruppbót líka. Ég vil minna á, hver hugsunarháttur ríkir almennt í landinu um þetta, og vil í þessu sambandi minna sérstaklega á það, sem stendur í blöðum þeirra þingmanna, sem berjast fyrir þessari uppbót á háu launin.

Í morgun var í Morgunblaðinu leiðari undir mjög fallegri fyrirsögn: „Skyldur við þá bágstöddu.“ Þessi leiðari gengur út á það, að öll dýrtíðaruppbót ætti að falla til þeirra, sem missa sína atvinnu. Í þessari grein segir svo, með leyfi forseta:

„Í sambandi við þau vandræði, sem af atvinnuleysi leiðir, og erfiðleika þá, sem að þeim steðja, er bágast eru staddir, hefir verið skotið fram þeirri hugmynd, að svo kunni að fara, að mæla þurfi erfiðleikum þeirra bágstöddustu með alveg sérstökum ófriðarráðstöfunum. Að launauppbætur og kaupuppbætur opinberra starfsmanna og allra, sem vinna fyrir kaupi, yrðu greiddar, eins og til er ætlazt, en allar þessar uppbætur færu ekki til þeirra, sem vinna fyrir laununum, heldur rynnu þær í sérstakan sjóð. Yrði fé þessa dýrtíðarsjóðs síðan varið til þess að bæta úr vandræðum þeirra, sem misst hafa atvinnu sína og lenda meira eða minna í bjargarskorti.“

Þetta segir nú Mbl. í morgun í sambandi við umr. um verðlagsuppbótina. Nú er það vitanlegt eftir skýrslum hagstofunnar, að þeir, sem hafa undir 400 kr. á mánuði, en fyrir 5 manna fjölskyldu að sjá, hafa ekki nægilegt til þess að framfleyta fjölskyldu sinni. Eins eru fjölskyldur með 200–300 kr. á mánuði. Þær fjölskyldur hlýtur að skorta mjög mikið. Þess vegna er það gefið, að launþegana kemur til með að skorta ýmislegt af því, sem verður að álíta nauðsynlegt til lífsins, og nú kemur Mbl. með þessa uppástungu, að þessir menn verði látnir greiða þessar uppbætur til þeirra, sem verr eru staddir. Þetta er bending blaðsins til þeirra, sem hafa yfir 8 þúsund kr. laun úr ríkissjóði um skyldur þeirra gagnvart hinum bágstöddu og hinum, sem hafa minna en 400 kr. á mánuði. Mbl. talar mjög skýrt til þessara manna. Ef þessir 8 þúsund kr. menn ætla að vera til með að gefa eftir þessar uppbætur, til þess að hægt sé að borga hinum bágstöddu laun, er engin ástæða til þess að verið sé að borga þeim þær. Því eins og vitað er, er það meiningin að gefa ríkinu heimild til niðurskurðar á fjárl. Afleiðingin er sú, að því meira fé sem ríkissjóður hefir aflögu, því meira er hægt að greiða vegna atvinnuleysis og í launauppbætur. Mér finnst því, að þeir, sem standa að einhverju leyti með Mbl., hljóti að vera með því að samþ., að þeir, sem hafa yfir 8 þúsund kr. laun, skuli engar uppbætur fá. Ég vil skora á þm. Sjálfstfl. að gera það nú í þetta skipti, að fara eftir því, sem Mbl. skorar á þá í morgun. Annars er mér ekki fjarri að halda, að morgunandakt Morgunblaðsins væri kannske ætluð til þess að koma mönnum á þá skoðun, að andi Sjálfstfl. sé annar en hann sýnist í þessu máli og flokkurinn vilji hjálpa hinum bágstöddu. Það væri því mjög leiðinlegt, ef þingflokkur Mbl. vildi annað en blaðið og að 8 þúsund kr. mennirnir yrðu áhrifaríkari.

Ég vil þess vegna vona, að fyrri brtt. nái ekki samþykki, þannig að 8 þúsund kr. fái að vera 8 þúsund kr., eins og hingað til. Hinsvegar er ég mótfallinn 11. gr., og að ég vil fella hana, byggist á því, að með henni er ætlazt til, að stj. sé gefin ennþá víðtækari heimild, þar sem leyft er að skera niður 35% af verðlagsuppbótinni. Þar af leiðandi á 11. gr. að falla burt.