23.04.1940
Sameinað þing: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Ég vil bara benda á það, að eftir till. hv. þm. A.-Húnv. ætti maður, sem byrjar að vinna hjá ríkinu 1. janúar, að fá enga verðlagsuppbót fyrr en næsta ár, af því að hann hefir engar tekjur haft áður hjá ríkinu, sem hægt er að miða uppbótina við. Sýslumaður, sem hættir störfum og fer á eftirlaun, fengi aftur uppbót eftir skattskránni, og þá kannske enga, ef hann hefði nú haft 8000 kr., þó hann hinsvegar fari niður í 500 kr. í eftirlaunum. Þeim, sem unnið hafa að þessu, hefir ekki enn heppnazt að koma hámarksákvæðinu í framkvæmanlegt form, og því verð ég með brtt. þremenninganna, en á móti frv. í heild, enda þótt ég telji, að lægst launuðu embættismennirnir ættu að fá uppbót.